Handbolti

Ólafur markahæstur í sigri en óvænt tap Ljónanna á heimavelli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ólafur í leik með Kristianstad.
Ólafur í leik með Kristianstad. vísir/getty
Alexander Petersson skoraði fjögur mörk er Rhein-Neckar Löwen tapaði nokkuð óvænt fyrir Vardar í Meistaradeild Evrópu á heimavelli í kvöld, 30-27.

Gestirnir frá Makedóníu voru fjórum mörkum yfir í hálfleik og unnu að lokum með þremur mörkum en Guðjón Valur Sigurðsson spilaði ekkert með Ljónunum vegna meiðsla.

Þeir eru þó enn í góðum málum í Meistaradeildinni en þeir eru í þriðja sæti riðilsins með tólf stig er þrjár umferðir eru eftir af riðlinum. Efstu sex liðin fara áfram svo Ljónin þurfa ekkert að stressa sig.

Ólafur Guðmundsson var markahæstur er sænsku meistararnir í Kristianstad unnu tveggja marka sigur, 28-26, á Karlskrona í kvöld eftir að hafa verið 16-13 yfir í hálfleik.

Ólafur skoraði sex mörk en Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson bætti við tveimur mörkum. Arnar Freyr Arnarsson komst ekki á blað en Kristianstad er með níu stiga forskot á toppi deildarinnar.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði ekki úr sínu eina skoti er topplið GOG í dönsku úrvalsdeildinni vann fjögurra marka sigur á Lemvig, 28-24, eftir að hafa leitt með einu marki í hálfleik. GOG á toppnum.

Björgvin Páll Gústavsson varði þrjú skot af þeim tólf sem hann fékk á sig er Skjern rúllaði fyrir Árósar, 36-28, eftir að hafa verið átta mörkum yfir í hálfleik, 20-12. Skjern er í sjöunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×