Körfubolti

50 stig frá Johnson er KR fór á toppinn | Mikilvægur sigur Stjörnunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Danielle var afar öflug í kvöld.
Danielle var afar öflug í kvöld. vísir/vilhelm
KR er komið á toppinn í Dominos-deild kvenna eftir öruggan sigur á botnliði Breiðablik, 102-81, er liðin mættust í Kópavogi í kvöld en nítjánda umferðin fór öll fram í kvöld.

KR byrjaði af miklum krafti og skoraði að vild í fyrsta leikhlutanum. Þær leiddu 36-20 eftir hann og svo 59-38 í hálfleik. Eftirleikurinn nokkur auðveldur og KR náði að dreifa álaginu í síðari hálfleik.

Kiana Johnson átti stórkostlegan leik fyrir KR. Hún skoraði 50 stig, tók sextán fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Algjörlega biluð tölfræði. KR er jafnt Keflavík á toppi deildarinnar en með betri innbyrðis viðureignir.

Í liði Blika var það einu sinni sem oftar Ivory Crawford sem var stigahæst með 21 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar en Breiðablik er á botni Dominos-deildarinnar með tvö stig. Allar líkur á að þær spili í B-deildinni á næstu leiktíð.

Stjarnan vann gríðarlega mikilvægan sigur á Haukum á heimavelli, 79-75, en með sigrinum er Stjarnan áfram í fimmta sætinu, tveimur stigum frá úrslitakeppnissæti. Haukar eru áfram í sjöunda sætinu með tíu stig.

Danielle Victoria Rodriguez var frábær í liði Stjörnunar. Hún skoraði 28 stig og tók þar að auki þrettán fráköst og gaf sjö stoðendingar. Bríet Sif Hinriskdóttir gerði 21 stig.

LeLe Hardy gerði tuttugu stig fyrir Hauka auk þess að rífa niður fjórtán fráköst. Hún gaf einnig sjö stoðsendingar en Eva Margrét Kristjánsdóttir gerði sextán stig og Þóra Kristín Jónsdóttir tólf.

Snæfell er áfram í fjórða sætinu eftir að hafa burstað Skallagrím í slagnum um vesturlandið er Snæfell hafði að lokum betur, 79-42, eftir að staðan hafi verið 35-22 í hálfleik. Skallagrímur skoraði átta stig í fjórða leikhlutanum.

Kristen Denise McCarthy var stigahæst hjá Snæfell með 26 stig og tók tuttugu fráköst en Gunnhildur Gunnarsdóttir gerði tíu. Shequila Joseph skoraði tólf stig fyrir Skallagrím sem er í sjötta sætinu með tólf stig.

Staðan í heild sinni (fjögur efstu sætin fara í úrslit):

1. KR - 28 stig

2. Keflavík - 28 stig

3. Valur - 26 stig

4. Snæfell - 24 stig

5. Stjarnan - 22 stig

6. Skallagrímur - 12 stig

7. Haukar - 10 stig

8. Breiðablik - 2 stig




Fleiri fréttir

Sjá meira


×