Handbolti

Selfoss kastaði frá sigrinum gegn KA/Þór

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mikilvægur sigur KA/Þórs í kvöld.
Mikilvægur sigur KA/Þórs í kvöld. vísir/vilhelm
KA/Þór er tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppnissæti eftir að liðið vann Selfoss með minnsta mun, 29-28, í spennutrylli á Selfossi í kvöld.

Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna veðurs. Því var leikið í kvöld og Akureyrarliðið var sterkari í fyrri hálfleik. Þær leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 16-13.

Selfyssingar komu til baka í síðari hálfleik og er tæpar 30 sekúndur voru eftir var allt jafnt, 28-28. Selfoss tók leikhlé og lagði á ráðin fyrir lokasóknina.

Það gekk ekki betur en svo að liðið kastaði frá sér boltanum á skelfilegan hátt í fyrstu sendingunni eftir leikhléið og það var enginn í markinu hjá liðinu. Því kastaði Katrín Vilhjálmsdóttir boltanum yfir allan völlinn í autt markið og eins marks sigur gestanna staðreynd.

Katrín var markahæst í liði KA/Þór með sjö mörk en Martha Hermannsdóttir gerði sex mörk. KA/Þór er í fimmta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir ÍBV, sem er í fjórða sætinu.

Selfoss er áfram á botninum og róðurinn þungur. Þrjú stig eru upp í HK sem er i umspilssæti. Perla Ruth Albertsdóttir gerði átta mörk og Hulda Dís Þrastardóttir fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×