Körfubolti

Jón Axel „algjörlega magnaður“ í mikilvægum sigurleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Axel Guðmundsson er besti leikmaður Davidson-skólans.
Jón Axel Guðmundsson er besti leikmaður Davidson-skólans. vísir/getty
Jón Axel Guðmundsson, landsliðsmaður í körfubolta, var enn eina ferðina stjarnan í liði Davidson-háskólans í nótt þegar að liðið vann mikilvægan sigur gegn Rhode Island á útivelli, 68-53.

Jón Axel skoraði 20 stig, tók tólf fráköst, gaf fimm stoðsendingar, stal þremur boltum og tapaði aðeins einum er hann leiddi Davidson til fimmta sigursins í röð. Með sigrinum hélt Davidson eins sigurs forskoti á toppi Atlantic 10-deildarinnar.

Grindvíkingurinn spilaði allar fjörutíu mínúturnar og nýtti skotin sín vel. Hann skoraði níu stig í fyrri hálfleik, öll af vítalínunni en skoraði svo úr fjórum af sjö skotum sínum í seinni hálfleik, þar af öllum þremur þriggja stiga skotum sínum.

„Þetta er ein besta frammistaða sem ég hef séð frá bakverði okkar í nokkurn tíma. Hann var algjörlega magnaður,“ sagði Bob McKillop, þjálfari Davidson, við heimasíðu skólans eftir leikinn.

Með Jón Axel í stuði er Davidson búið að vinna 17 leiki og tapa aðeins fimm og er sem fyrr segir á toppnum í sinni deild. Það er búið að vinna átta leiki innan A 10-deildarinnar og tapa einum og vinna alla ellefu heimaleiki sína á tímabilinu.

Íslenski landsliðsmaðurinn er næst stigahæstur í liðinu á tímabilinu með 16,3 stig að meðaltali í leik en hann er frákasta- og stoðsendingahæstur með 6,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Jón Axel á ferð og flugi.vísir/getty

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×