Handbolti

Sjáðu klaufamarkið sem gæti fellt Selfoss

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Martha Hermannsdóttir stelur boltanum.
Martha Hermannsdóttir stelur boltanum. skjáskot/selfoss TV
KA/Þór lagði Selfoss, 29-28, í spennuleik í 15. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í gærkvöldi þar sem að Selfoss bókstaflega lagði sigurinn upp í hendurnar á gestunum að norðan á síðustu sekúndum leiksins.

Eftir að vera undir, 25-22, kom Selfoss til baka og jafnaði leikinn og fór í sókn í stöðunni 28-28. Selfoss fékk fríkast þegar að 35 sekúndur voru eftir og var boltinn sendur á skyttuna Ídu Bjarklind Magnúsdóttur.

Ída gerði sig seka um gríðarleg mistök þegar að hún kastaði boltanum beint í hendurnar á Sólveigu Láru Kristjánsdóttur sem þakkaði fyrir sig og skoraði frá miðju í tómt markið enda heimakonur að spila með sjö í sókn.

Selfoss fór aftur í sókn með tækifæri til að jafna leikinn en Ída átti þá misheppnaða línusendingu og fór svo að KA/Þór keyrði norður með stigin tvö og er nú aðeins tveimur stigum frá sæti í úrslitakeppninni.

Þetta sigurmark KA/Þórs gæti reynst banabiti Selfyssinga í deildinni sem eru á botninum með aðeins fjögur stig, þremur stigum frá HK. Selfoss og HK mætast í lokaumferðinni og þurfa Selfyssingar að nálgast HK meira fyrir þann leik.

Selfoss á vissulega fjóra leiki í viðbót fram að því en liðið er aðeins búið að vinna einn af fimmtán leikjum sínum í deildinni til þessa og er liðið ekki líklegt til afreka á móti efstu liðunum.

Það á þó eftir að fara í TM-höllina í Garðabænum í næst síðustu umferðinni þannig öll nótt er svo sannarlega ekki úti enn fyrir Selfossliðið þrátt fyrir mjög erfiða stöðu eftir þetta dramatíska tap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×