Körfubolti

Leikmaður í Domino´s deild karla dæmdur í bann í annarri deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reiðikast Keflvíkingsins Gunnars Ólafssonar kostar hann ekki leik.
Reiðikast Keflvíkingsins Gunnars Ólafssonar kostar hann ekki leik. Vísir/Bára
Aga- og úrskurðarnefnd Körfuknattleikssambands Íslands tók fyrir mál tveggja leikmanna í Domino´s deild karla í vikunni. Annar þeirra slapp við bann.

Jóhann Árni Ólafsson er leikmaður með karlaliði Grindavíkur í Domino´s deildinni en hann er einnig þjálfari kvennaliðsins og þar er hann á leiðinni í bann.

„Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, skal nú sæta eins leiks bann vegna háttsemi sinnar í leik ÍR og Grindavíkur í Íslandsmóti 1. deild meistaraflokks kvenna, sem leikinn var 26. janúar 2019,“ segir í frétt á heimasíðu KKÍ.

Grindavíkurliðið tapaði leiknum með tveimur stigum eftir tvíframlengdan leik.

Gunnar Ólafsson, leikmaður Keflavíkur, sleppur hins vegar með áminningu þrátt fyrir að hafa verið rekinn út úr húsi í leik Stjörnunnar og Keflavíkur á dögunum. Gunnar missti algjörlega stjórn á sér og var sendur í sturtu.

Þetta þýðir að bæði Gunnar Ólafsson og Jóhann Árni Ólafsson geta verið með sínum liðum í Domnino´s deild karla í kvöld.

Gunnar Ólafsson og félagar í Keflavík taka þá á móti Skallagrími í Blue-höllinni á Sunnubraut en Jóhann Árni Ólafsson og félagar í Grindavík sækja Njarðvíkinga heim í Ljónagryfjuna. Báðir leikirnir hefjast klukkan 19.15 og það gera einnig leikir Þórs og Breiðabliks í Þorlákshöfn og leikur Hauka og KR á Ásvöllum.

Stöð 2 Sport sýnir leik Njarðvíkur og Grindavíkur beint frá Ljónagryfjunni og hefst útsendingin klukkan 19.05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×