Varað við hættulegu prumpuslími

Leikfangaslímið Noise Putty, sem fengist hefur í íslenskum verslunum, er talið geta innihaldið of mikið magn bórs. Fyrir vikið getur það verið hættulegt að sögn Neytendastofu og lagt er til að notkun slímsins verði hætt hið snarasta.
Í viðvörun stofnunarinnar segir að umrætt bór geti borist inn í líkamann í gegnum húð þegar það er handfjatlað. Það verði að teljast áhyggjuefni enda sé listinn yfir þekktar eiturverkanir langur.

Þær eru meðal annars:
Húðerting með útbrotum (jafnvel mikill roði og blöðrur)
Skjálfti
Flog
Höfuðverkur
Meltingartruflanir
Þunglyndi og örlyndi, segir í útlistun Neytendastofu og bætt við að bór eigi jafnframt að geta haft hamlandi áhrif á þroska æxlunarfæra í börnum.
Stofnunin beinir þeim tilmælum til neytenda að þeir hætti strax notkun prumpuslímsins og skili því til seljenda, en leikfangið hefur meðal annars verið til sölu í verslunum Hagkaups og Iceland.
Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir notkun sambærilegs prumpuslíms.