Erlent

Ánægja með Corbyn hrynur þrátt fyrir veika stöðu May

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnar May fer stuðningur við Corbyn þverrandi.
Þrátt fyrir óvinsældir ríkisstjórnar May fer stuðningur við Corbyn þverrandi. Vísir/EPA
Aðeins einn af hverjum fimm svarendum í nýrri skoðanakönnun treystir Jeremy Corbyn, leiðtoga  breska Verkamannaflokksins, í málum sem tengjast útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Ánægja með störf formannsins er ein sú versta í sögu flokksins.

Samkvæmt könnun Ipsos MORI sem Evening Standard birtir í dag hefur hlutfall þeirra sem eru ánægðir með störf Corbyn farið út 27% niður í 17% frá því í desember. Enginn leiðtogi Verkamannaflokksins hefur haft lægra hlutfall frá því á tímum Michael Foot sem galt afhroð í kosningum árið 1983. Þeim sem segjast óánægðir með Corbyn hefur fjölgað úr 59% í 72%.

Aðeins einn af hverjum sex telur Corbyn sterkan leiðtoga þegar kemur að útgöngunni úr Evrópusambandinu og innan við fimmtungur svarenda telur hann setja þjóðarhagsmuni ofar öðru í þeim efnum. Traust til þess að Corbyn taki réttar ákvarðanir í Evrópumálum (20%) er enn minna til Theresu May forsætisráðherra sem þó er lágt fyrir (34%).

Hart hefur verið sótt að Corbyn, bæði innan flokks hans og utan, fyrir að taka ekki skýrari afstöðu gagnvart Brexit og gera Verkamannaflokkinn að skýrum valkosti við útgöngustefnu Íhaldsflokksins. Corbyn hefur fram að þessu viljað halda áfram með útgönguna og lagst gegn hugmyndum um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Þær hafa meðal annars komið fram í Verkamannaflokknum.

Óvenjulegt í ljósi óvinsælda forsætisráðherrans

Niðurstöður könnunarinnar eru ekki síst vandræðalegar í ljósi þess að May forsætisráðherra fær einnig slæma útreið. Raunar er ánægjuhlutfall hennar svo gott sem það sama og Corbyn í könnuninni. Ríkisstjórn hennar hefur ítrekað riðað til falls undanfarna mánuði, ekki síst eftir að afgerandi meirihluta breska þingsins hafnaði útgöngusamningi hennar í janúar.

„Oft er leitnin þannig að þegar einn leiðtogi fellur er annar á uppleið en það er ekki tilfellið núna,“ segir Gideon Skinner, forstöðumaður stjórnmálarannsókna hjá Ipsos MORI við breska blaðið.

Óvinsældir Corbyn ná einnig til Verkamannaflokksins. Innan við helmingur kjósenda flokksins er ánægður með hann, 44%.

Á sama tíma eru enn 34 prósentustigum fleiri kjósendur Íhaldsflokksins ánægðir með Theresa May forsætisráðherra en eru óánægðir með hana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×