Erlent

Skýrar vísbendingar um að rafrettur geti hjálpað reykingafólki

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Tæplega 900 reykingamenn tóku þátt í rannsókninni.
Tæplega 900 reykingamenn tóku þátt í rannsókninni.
Reykingafólk sem notar rafrettur til að hætta að reykja er tvöfalt líklegra til að takast ætlunarverkið en þeir sem nota hefðbundin hjálpartæki á borð við nikótíntyggjó eða -plástra. Þetta er niðurstaða umfangsmestu rannsóknar sem gerð hefur verið á virkni rafretta sem aðferðar til að hætta að reykja. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í vísindaritinu New England Journal of Medicine en hún var framkvæmd af rannsóknarteymi við Queen Mary-háskólann í Lundúnum.

Tæplega 900 reykingamenn tóku þátt í rannsókninni. Helmingur þátttakenda fékk rafrettur og vökva, en hinn hópurinn fékk tyggjó og önnur hefðbundin hjálpartæki. Vísindamennirnir fylgdust með árangri reykingafólksins í heilt ár.

Átján prósent þeirra sem notuðu rafrettu voru reyklaus að ári liðnu, á meðan 9,9 prósent voru reyklaus meðal þeirra sem notuðu önnur hjálpartæki. Í niðurstöðunum kemur jafnframt fram að reykingar hjá rafrettunotendum sem reyktu enn að ári liðnu voru 50 prósent minni en við upphaf rannsóknarinnar.

Peter Hajek, prófessor við Queen Mary og aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði í fréttatilkynningu í gærkvöld að þetta væri í fyrsta skipti sem sýnt hefði verið fram á jákvæð áhrif hefðbundinna rafretta hjá þeim sem vilja hætta að reykja.

„Þó svo að stór hópur reykingafólks segist hafa hætt að reykja með hjálp rafretta, þá hefur heilbrigðisstarfsfólk verið tvístígandi með að mæla með rafrettum fyrir þennan hóp þar sem skortur hefur verið á skýrum vísbendingum sem fengnar eru úr slembirannsóknum með samanburði,“ sagði Hajek. „Núna eru líkur á að þetta muni breytast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×