Körfubolti

Porzingis til Dallas

Anton Ingi Leifsson og Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Porzingis í fínu fötunum.
Porzingis í fínu fötunum. vísir/getty
Adrian Wojnarowski, einn virtasti blaðamaðurinn um NBA-körfuboltann, segir Kristaps Porzingis á leið frá New York Knicks til Dallas Mavericks.

Lettinn hávaxni er sagður hafa farið á fund í vikunni með stjórnarmönnum New York Knicks en hann er talinn hafa látið þá vita að honum langaði að komast burt frá félaginu.

Á móti því að Porzingis fari til Dallas þá fara í hina áttina þeir Dennis Smith Jr, DeAndre Jordan og Wesley Matthews. Þeir Tim Hardaway Jr, Courtney Lee og Burke fylgja Porzingis með til Dallas.

Porzingis hefur verið mikið á meiðslalistanum undanfarið ár. Hann sleit krossbönd og var kominn aftur á völlinn er hann meiddist á nýjan leik eftir troðslu í leik gegn Milwaukee 6. febrúar.

Fjölmiðlar vestanhafs telja mislíklegt að Porzingis komist aftur á völlinn á þessu tímabili. Þess vegna má lesa úr þessu að Dallas séu að fórna þessu tímabili að einhverju leyti en þeir eru að senda frá sér þrjá lykilmenn í skiptunum.

Það sem þeir eru að fá í staðinn er hinsvegar leikmaður sem á að geta myndað tvíeyki ásamt nýliðanum Luka Doncic sem ætti að geta barist um titillinn í framtíðinni. 

Til þess að fá Doncic í nýliðavalinu í sumar sendu Dallas í burtu valréttin sinn í næsta nýliðavali með því skilyrði að ef valið yrði eitt af fyrstu fimm myndu þeir halda valréttinum.

Eins og staðan er núna eru Dallas með ellefta versta vinningshlutfall deildarinnar og eiga því ekki miklar vonir á að halda valréttinum.

Það er þó spurning hvort að sigurhlutfallið muni hrynja eftir að þeir senda frá sér þrjá lykilmenn og þeir gætu því mögulega haldið valréttinum. 

Aðalbitinn sem New York telja sig vera að fá í skiptunum er eflaust Dennis Smith Jr. Hann var valinn númer 9 í nýliðavalinu vorið 2017 og átti ágætis tímabil í fyrra sem nýliði.

Með því að senda hann í burtu eru Dallas að mörgu leyti að segja að þeim finnist Smith ekki passa með Doncic sem er samkvæmt flestum fjölmiðlum vestanhafs talinn líklegastur til að vera valinn nýliði ársins. 

Í sumar eru ansi margar stjörnunar samningslausar. Þar á meðal eru til dæmis Kevin Durant og Kyrie Irving sem gætu haft áhuga á að fara til New York.

Með því að senda í burtu Hardaway og Lee sem eiga meira en eitt ár eftir samningnum sínum fyrir Jordan og Matthews sem eru á samningum sem renna út í sumar eru þeir að búa til ansi mikið pláss undir launaþakinu til að ná í eina jafnvel tvær stjörnur í sumar. 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×