Erlent

Of­beld­is­full mót­mæl­i í Grikk­land­i vegn­a nafn­a­breyt­ing­ar Mak­ed­ón­í­u

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér sést óeirðalögregla kljást við mótmælanda.
Hér sést óeirðalögregla kljást við mótmælanda. AP/Thanassis Stavrakis
Átök urðu í Aþenu, höfuðborg Grikklands, þegar mótmælendum og lögreglu í borginni lenti saman. Mótmælendur voru saman komnir til þess að sýna andstöðu við samningaviðræður sem nú eiga sér stað milli makedónskra og grískra stjórnvalda í kjölfar fyrirhugaðrar nafnabreytingar Makedóníu, sem stefnt er á að taki upp nafnið Norður-Makedónía.

Að minnsta kosti 10 lögregluþjónar eru slasaðir eftir mótmælin sem voru nokkuð ofbeldisfull. Mótmælendur réðust að lögreglu með grjótkasti, blysum, kylfum og málningu svo eitthvað sé nefnt. Lögreglan svaraði svo árásum mótmælenda með ítrekuðum táragashrinum.

Mótmælin voru ofbeldisfull.AP/Yorgos Karahalis

Vilja binda enda á áralangt ósætti ríkjanna

Nafnabreytingunni er aðallega ætlað að liðka fyrir samskiptum Makedóníu við Grikkland og auka möguleika sína á inngöngu í Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið, en Grikkir hafa hingað til hindrað allar tilraunir Makedóníumanna til að ganga í samböndin, þar sem Grikkir telja að í nafni Makedóníu felist tilkall til landsvæðis að sama nafni sem liggur innan landamæra Grikklands.

Gríska þingið stefnir á að kjósa um nafnabreytingarsamning Makedóníu á mánudaginn og hefja þannig sáttaferli við nágranna sína í norðri, verði samningur milli ríkjanna samþykktur. Makedónska þingið samþykkti nafnabreytinguna fyrr á árinu.

Alexis Tsipras, forsætirsráðherra Grikklands.Ayhan Mehmet/Getty

Ekki nóg fyrir alla

Þó eru ekki allir Grikkir sáttir með gang mála eins og mótmælin sýna fram á, en mótmælendur telja nafnabreytinguna ekki vera nóg og að í nafni Norður-Makedóníu myndi enn felast tilkall til landsvæðis Grikkja og hafa kallað hana „valdarán á forngrískri arfleið.“

Í yfirlýsingu frá forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, var „öfgakenndum öflum og meðlimum Gullinnar dögunar,“ sem er öfga-hægri stjórnmálaflokkur í landinu, meðal annars þekktur fyrir andúð á innflytjendum, kennt um mótmælin og ofbeldið sem fylgdi þeim.

Skipuleggjendur mótmælanna höfðu áður sagst vonast til að draga að sér um 600 þúsund manns, en lögregla áætlaði að um 60 þúsund hafi verið viðstödd mótmælin. Þá höfðu þeir tilkynnt að þrjú þúsund rútum fullum af mótmælendum yrði ekið til Aþenu, en lögreglan gaf út að rúturnar hafi verið 327 í heildina.

Þá tóku bændur í norðurhluta Grikklands sig saman og lokuðu hraðbrautinni sem leiðir að landamærum Grikklands og Makedóníu til að sýna samstöðu með mótmælendum. Brautin hefur nú verið opnuð að nýju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×