Handbolti

Brasilía hafði betur gegn Króatíu │Patrekur tók nítjánda sætið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Brasilíumenn unnu sannfærandi sigur á Króatíu
Brasilíumenn unnu sannfærandi sigur á Króatíu vísir/getty
Brasilíumenn unnu óvæntan en mjög verðskuldaðan sigur á Króatíu í milliriðli okkar Íslendinga á HM í Þýskalandi og Danmörku í dag.

Brasilíumenn mættu miklu sterkari til leiks og það gekk bókstaflega ekkert upp hjá Króötum í sókninni. Króatar völdu að spila með sjö sóknarmenn og taka markmanninn út af og það kom hressilega í bakið á þeim því Brasilíumenn skoruðu ítrekað í tómt markið eftir mistök í sókninni hjá Króatíu.

Eftir tæpar tuttugu mínútur var staðan 12-6 fyrir Brasilíu. Króatar náðu þá aðeins að laga stöðuna en í hálfleik munaði fjórum mörkum á liðunum 17-13.

Brasilíumenn héldu áfram af krafti í seinni hálfleik en þegar tíu mínútur voru eftir munaði fimm mörkum. Þá tóku Króatar sterkan kafla, skoruðu fjögur mörk í röð og gerðu lokamínúturnar spennandi. Þeir náðu þó aldrei að jafna leikinn og þegar upp var staðið munaði þremur mörkum, 29-26.

Brasilíumenn eru því komnir með tvö stig í milliriðlinum en Króatar eru áfram með fjögur. Ísland er nú eina liðið án stiga í riðlinum.





Í hinum milliriðlinum vann Ungverjaland fimm marka sigur á Túnis 26-21.

Zsolt Balogh átti frábæran leik fyrir Ungverja og skoraði níu mörk og Mate Lekai bætti sjö við. Ungverjar voru 16-14 yfir í hálfleik og þeir héldu Túnis í aðeins sjö mörkum í seinni hálfleik.

Ungverjar eru nú komnir með þrjú stig í milliriðlinum og fara upp í þriðja sæti hans, stigi á undan Norðmönnum sem mæta Egyptum í kvöld.



Austurríki tryggði sér 19. sæti mótsins með sigri á Barein þar sem tveir íslensku þjálfaranna á mótinu mættust í mjög sveiflukenndum leik.

Lærisveinar Patreks Jóhannessonar voru með yfirhöndina allan fyrri hálfleikinn en komust þó aldrei í meira en þriggja marka forystu. Strákarnir hans Arons Kristjánssonar tóku áhlaup undir lok hálfleiksins og Husain Alsayyad jafnaði leikinn undir lok hálfleiksins og var staðan 17-17 þegar gengið var til búningsherbergja.

Í seinni hálfleik byrjuðu Bareinar á fyrsta markinu en Austurríkismenn fóru á 5-0 kafla og komu stöðunni í 19-23. Þá tók Barein áhlaup og komst tveimur mörkum yfir 27-25. Austurríkismenn skoruðu hins vegar síðustu fjögur mörk leiksins og tóku 27-29 sigur og þar með 19. sæti mótsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×