Innlent

Grindvíkingar hækka lægstu laun einhliða

Sveinn Arnarsson skrifar
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar og var sviðsstjóra falið að vinna málið áfram.
Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar og var sviðsstjóra falið að vinna málið áfram.
Grindavíkurbær ætlar sér að hækka laun þeirra starfshópa í bæjarfélaginu sem eru með hvað lægstu launin. Bæjarfulltrúar telja lægst launuðu starfsmenn sveitarfélagsins hafa of lág laun og vilja bæta þau.

Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Grindavíkurbæjar og var sviðsstjóra falið að vinna málið áfram.

„Við teljum þá lægst launaða sem eru starfsmenn í íþróttahúsi Grindavíkur og starfsmenn leikskóla,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, formaður bæjarráðs. „Þetta er gert í samvinnu allra stjórnmálaflokka í bænum og er í stefnuyfirlýsingu meirihlutans að bæta kjör þessa fólks.“

Hjálmar segir að misræmi hafi verið milli lægstu launa í grunnskólum og leikskólum og þetta sé liður í að halda í starfsfólk. Ekki sé ljóst hversu margir fái þessa kjarabót. „Þegar sviðsstjóri kemur með gögnin fyrir næsta fund bæjarráðs þá sjáum við betur hversu margir einstaklingar munu hækka í launum og hver kostnaður sveitarfélagsins er áætlaður.“

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur umboð sveitarfélaga til að semja um kaup og kjör starfsmanna sveitarfélagsins. Mörg sveitarfélög hafa bent á þá stöðu þegar krafist er hækkunar í einstaka sveitarfélögum að sveitarfélögin sjálf fari ekki með umboð til að semja um launin og því geti þau ekki hækkað þau. Hjálmar segir það vissulega rétt en vonast eftir lausn á því máli. „Samband sveitarfélaga semur fyrir hönd sveitarfélagsins og því þurfum við líklega að fá umsögn frá þeim en við erum með ákveðnar kröfur sem við leggjum á móti þó þær séu nú litlar, þannig að allir vinna,“ segir Hjálmar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×