Erlent

Kenna hvor öðrum um umdeilt atvik

Samúel Karl Ólason skrifar
Nick Sandmann og Nathan Philips á tröppum minnisvarða Abraham Lincoln.
Nick Sandmann og Nathan Philips á tröppum minnisvarða Abraham Lincoln.
Táningurinn sem hefur orðið andlit umdeilds atviks í Washington DC um helgina, segist ekki hafa ögrað eða lítilsvirt aldraðan mann af indjánaættum. Í tilkynningu segir Nick Sandmann að hann hafi ekki talað við eða átt í nokkrum samskiptum við Nathan Philips, sem hafi gengið upp að sér með trommu og hann hafi eingöngu reynt að draga úr spennu á milli fylkinga.

Bæði Sandmann og Philips segjast hafa reynt að draga úr spennu sem hafi myndast milli þriggja fylkinga á svæðinu. Sandmann tilheyrði hópi ungmenna úr kaþólskum drengjaskóla frá Kentucky og voru þeir í höfuðborginni til að mótmæla fóstureyðingum. Philips var í hópi bandarískra frumbyggja sem voru í árlegri kröfugöngu.

Þriðji hópurinn á svæðinu tilheyrði Hebrew Israelites, sem er öfgafull fylking þeldökkra aðila sem telja sig afkomendur gyðinga úr biblíunni og sérvalda þjóð guðs. Minnst fimm meðlimir fylkingarinnar voru á svæðinu. Þeir birtu langt myndband á Youtube sem fangaði hið umdeilda atvik og varpar frekara ljósi á það.

Allar fylkingarnar saka hinar um dónaskap og leiðindi en myndbönd gera ljóst að meðlimir Hebrew Israelites höguðu sér verst. Þeir munu hafa byrjað á því að deila við frumbyggjanna áður en þeir sneru sér að táningunum.



Sandmann segir hann og vini sína hafa verið kallaða rasista og afsprengi sifjaspells, svo eitthvað sé nefnt. Meðal þess sem meðlimir Hebrew Israelites gerðu var að veitast að tveimur þeldökkum nemendum Covington skólans og kalla þá meðal annars „negra“. Myndbönd styðja þá frásögn.

Vitni sem Washington Post ræddi við segir þó undarlegt að enginn fullorðinn sem var með drengjunum reyndi að koma til hjálpar og taka stjórn á hópnum eða koma þeim til varnar.

Sandmann segir nemendur hafa fengið leyfi umsjónarmanna til að svara dónaskapnum með söngvum skólans. Það var einn þeirra söngva sem leiddi til þess að Philips og aðrir frumbyggjar gengu að skóladrengjunum.

Philips og félagar segjast hafa séð drengina dansa einhverskonar útgáfu af Haka-dansi, sem er dans frumbyggja Nýja Sjálands. Þeim fannst drengirnir vera að hæðast að þeim dansi.

Í fyrstu gengu Philips og félagar hans á milli drengjanna og hinnar fylkingarinnar en Philips segist hafa ætlað sér að ganga upp þrep minnisvarða Abraham Lincoln, því þar hafi einhverjir vinir hans verið, en þar hafi einn nemandi staðið í vegi hans og neitað að færa sig. Það hafi verið Sandmann.

Þá segir Philips að aðrir nemendur hafi talað illa um hann og aðra frumbyggja Bandaríkjanna.

Sandmann segir það ekki rétt. Hann segir Philips hafa gengið upp að sér sérstaklega. Þá hafi hann ekki heyrt neinn af drengjunum segja neitt slæmt og að frumbyggjarnir hafi þess í stað kallað á þá að þeir ættu meðal annars að fara aftur til Evrópu.

AP segir þó að myndbönd sýni drengina í það minnst hlæja að Philips og einhverja þeirra hæðast að honum.

Aðspurður af hverju hann reyndi ekki að fara fram hjá honum segir Philips að hafi séð Sandmann sem meira en táningsdreng. Hann hafi séð hann sem einhvers konar táknmynd þess sem frumbyggjar Bandaríkjanna hafa þurft að þola frá hvítum innflytjendum Bandaríkjanna.

„Ég var að hugsa um 500 ára þjóðarmorð í þessu ríki, það sem fólkið þitt hefur gert,“ sagði hann við blaðamann Washington Post. „Þið sjáið mig ekki einu sinni sem manneskju.“

Hann kennir drengjunum, umsjónarmönnum þeirra og meðlimum Hebrew Israelites um spennuna á svæðinu.

Í áðurnefndri yfirlýsingu segist Sandmann ekki skilja af hverju báðar hinar fylkingarnar hafi nálgast hann og skólafélaga hans. Þeir hafi eingöngu verið þarna til að bíða eftir rútu. Þá segist hann ekki bera neinn illvilja til Philips. Hann virði rétt hans til mótmæla en telur að hann ætti að hugsa sinn gang varðandi persónulegt rými annarra.

Sandmann segir einnig að honum og fjölskyldu hans hafi borist morðhótanir vegna atviksins og hann hafi verið kallaður öllum illum nöfnum.

Hvað sem segja má um þetta tiltekna atvik þykir það þó til marks um aðstæðurnar og deilurnar í Bandaríkjunum og jafnvel víðar. Viðbrögðin á samfélagsmiðlum og víðar voru yfirgengileg og virðast hafa beinst gegn röngum aðilum, þar sem meðlimir Hebrew Israelites byggðu vísvitandi upp spennu og veittust að hópi ungra drengja með dónaskap og leiðindum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×