Erlent

Ísraelsmenn gerðu umfangsmiklar árásir í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugar á flugi yfir Damaskus.
Eldflaugar á flugi yfir Damaskus. AP/SANA
Her Ísrael gerði í morgun fjölda árása í suðurhluta Sýrlands eftir að eldflaugum var skotið að Ísrael frá Sýrlandi í gær. Ísraelsmenn segja hersveitir Íran hafa skotið eldflaugunum og því hafi árásir verið gerðar á þá og stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, sem styður við sveitir Íran.

Stjórnarher Assad heldur því fram að flestar eldflaugar Ísrael hafi verið skotnar niður. Fregnir hafa þó borist af mannsfalli hjá stjórnarhernum. Syrian Observatory for Human Rights segir minnst ellefu manns hafa fallið í árásunum. Þar af minnst fjórir meðlimir stjórnarhersins.

Ísraelsmenn sögðu frá árásunum á Twitter í morgun, einungis nokkrum klukkustundum eftir að þær voru gerðar. Þeir byrjuðu á því að sýna myndband þar sem sjá má eldflaugavarnir Ísrael skjóta niður eldflaugar frá Sýrlandi. Árásirnar voru framkvæmdar bæði með orrustuþotum og eldflaugum.

Ísrael svaraði með árásum á stöðvar Íran og Hezbollah í Sýrlandi, nærri Damaskus. Herinn gerir reglulega árásir sem beinast gegn Íran og Hezbollah þar í landi en sjaldgæft er að þeir segi frá þeim. Herinn segir að stjórnarher Assad hafi skotið eigin eldflaugum á loft og reynt að granda eldflaugum Ísrael. Því hafi loftvörnum verið grandað.

Þá birti herinn myndband af slíkum árásum þar sem sjá má eldflaug lenda á loftvörnum af rússneskri gerð. Þetta er í minnst annað sinn sem Ísraelar hafa grandað slíku loftvarnakerfi.

Talsmaður hersins segir ríkisstjórn Assad hafa verið varaða við árásunum og þeim ráðlagt að skjóta ekki að herþotum Ísrael.

SANA, ríkissjónvarp Sýrlands, segir loftvarnir stjórnarhersins hafa komið í veg fyrir að her Ísrael næði markmiðum sínum með árásunum. Það hefur þó verið dregið í efa af eftirlitsaðilum. Rússneski herinn segir að rúmlega 30 eldflaugar frá Ísrael hafi verið skotnar niður. Þó segja Rússar að árásin hafi valdið þó nokkrum skaða á flugvellinum í Damaskus.



Ísraelsmenn eru taldir hafa gert fjölmargar árásir á flugvöllinn og segja þeir að vöruskemmur þar séu notaðar til að geyma vopn sem Íran sendir til Hezbollah.

Yfirvöld í Íran hóta reglulega að gereyða Ísrael. Íran hefur stutt við bakið á Assad gegn uppreisnarhópum og hryðjuverkasamtökum í Sýrlandi og hafa umsvif þeirra og Hezbolla, sem Íran styður einnig, aukist til muna í Sýrlandi. Ísraelar segja ekki koma til greina að gera Íran kleift að ná fótfestu í Sýrlandi og hafa gert fjölda árása gegn þeim á undanförnum árum.

Sjaldgæft er að herinn segi frá árásum þessum, eða jafnvel viðurkenni þær. Andstæðingar Benjamin Netanyahu, forsætirsráðherra Ísrael, segja hann hafa opinberað árásirnar og saka hann um að nota herinn í pólitískum tilgangi. Kosningar munu fara fram í Ísrael í apríl.

Fjölmiðlar í Ísrael segja að þó Netayahu hafi nýtt sér árásirnar sé um skilaboð til Íran og Rússlands að ræða. Að árásir á Ísrael verði ekki liðnar og að Ísraelsmenn muni ekki hika við að svara þeim af miklu afli.


Tengdar fréttir

Rússar ætla að senda Sýrlendingum öflug loftvarnaloftskeyti

Rússneska ríkisstjórnin hyggst vopna sýrlensk stjórnvöld með hátækni loftvarnaloftskeytum (e. anti-aircraft missile) af gerðinni S-300 á næstu tveimur vikum. Þetta hefur Washington Post eftir varnarmálaráðherra Rússa, Sergei Shoigu.

Ísraelar skutu niður sýrlenska þotu

Í tilkynningu frá hernum segir að miklir bardagar eigi sér stað Sýrlandsmegin við landamæri ríkjanna og að þotunni hafi verið flogið tæpa tvo kílómetra inn í lofthelgi Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×