Sport

Serena sló út þá „bestu“ í heimi og komst í átta manna úrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams fagnar sigri.
Serena Williams fagnar sigri. Getty/Scott Barbour
Bandaríska tenniskonan Serena Williams er komin í átta manna úrslit á Opna ástralska meistaramótinu í tennis eftir sigur á efstu konu heimslistans í dag.

Serena Williams vann þá hina rúmensku Simona Halep 6-1, 4-6 og 6-4 eftir hörku viðureign.  Með þessum sigri komst Serena í fimmtugasta sinn í átta manna úrslit á risamóti í tennis. Tólf af þeim hafa verið á Opna ástralska.





Simona Halep hefur verið í toppsæti heimslitans í 48 vikur eða síðan í febrúar 2018. Halep tapaði í úrslitaleik Opna ástralska meistaramótsins í fyrra en kemst ekki lengra en í fjórðu umferð í ár.

Serena Williams er orðin 37 ára gömul og að koma til baka eftir að hafa eignast sitt fyrsta barn. Hún hefur unnið 23 risamót á ferlinum eða fleiri en nokkur önnur í nútíma tennis.  Hér fyrir neðan talar hún um Disney mynda áhorf dóttur sinnar.





Williams dreymir hinsvegar um að slá met Ástralans Margaret Court sem vann 24 risamót frá 1960 til 1973. Hún komst í úrslitaleik Opna bandaríska mótsins í fyrra en tapaði þá óvænt fyrir Naomi Osaka frá Japan.

Serena Williams mætir hinni tékknesku Karolína Pliskova í átta manna úrslitum og sigurvegarinn úr þeirri viðureignir keppir við sigurvegarann úr leik Naomi Osaka og Elina Svitolina frá Úkraínu.

Í hinum tveimur viðureignum átta manna úrslitanna mætast Petra Kvitová og heimakonan Ashleigh Barty annarsvegar og Anastasia Pavlyuchenkova og Danielle Collins hinsvegar

Serena Williams hefur sjö sinnum fagnað sigri á Opna ástralska meistaramótinu síðast árið 2017.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×