Fótbolti

Sara Björk um fyrsta leikinn undir stjórn Jóns Þórs: „Þeir eru öðruvísi týpur“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Skjámynd/Youtube/KSÍ
Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu spilar í dag sinn fyrsta leik undir stjórn nýja landsliðsþjálfarans Jóns Þórs Haukssonar.

Stelpurnar okkar mæta þá Skotlandi í vináttulandsleik á La Manga á Spáni og hefst leikurinn klukkan þrjú að íslenskum tíma.

Landsliðsfyrirliðinn og Íþróttamaður ársins, Sara Björk Gunnarsdóttir, var tekin í viðtal á Twitter-síðu KSÍ í tilefni af leiknum eins og sjá má hér fyrir neðan. 

„Þetta hefur gengið mjög vel og aðstæður eru til fyrirmyndar. Við erum búnar að æfa vel. Auðvitað er nýtt þjálfarateymi og nýjar áherslur en það hefur gengið mjög vel,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í viðtali við Óskar Örn Guðbrandsson, starfsmann KSÍ.

Jón Þór Hauksson er að taka við landsliðinu af Frey Alexanderssyni sem var með liðið í fimm ár. En eru miklar breytingar hjá Jóni frá því sem var hjá Frey?

„Þeir eru öðruvísi týpur. Við höfum samt ekki verið mjög lengi á La Manga en þetta er svolítið öðruvísi,“ sagði Sara Björk.

„Það er alltaf góð stemmning í hópnum. Það hefur verið fínt að hitta stelpurnar og fínt að koma saman. Þetta er nýtt upphaf og við erum allar mjög spenntar,“ sagði Sara Björk.

„Við ætlum að sýna hvað við getum og þetta er frábær leikur á móti Skotum sem eru með gott lið. Það verður krefjandi og við erum spenntar að fá að spila,“ sagði Sara Björk

„Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að ná upp góðri stemmningu fyrir leikinn og sýna þessar áherslur sem Jón er búinn að vera koma inn á æfingum. Fyrsta og fremst að fá sigurtilfinningu inn í hópinn með því að vinna leikinn,“ sagði Sara Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×