Handbolti

Karabatic hitti Teit tíu árum seinna og nú inn á vellinum

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Teitur Örn og Karabatic nú og fyrir tíu árum.
Teitur Örn og Karabatic nú og fyrir tíu árum. vísir/epa
Tíu ára áskorunin er það vinsælasta á veraldarvefnum í dag þar sem að fólk birtir af sér tíu ára gamlar myndir við hlið nýrra mynda til að sýna breytingu á sjálfu sér.

Móðir Teits Arnar Einarssonar, landsliðsmanns í handbolta, fór aðeins aðra leið en hún birti mynd af syni sínum ásamt Nicola Karabatic frá þvi að Teitur var ungur snáði ásamt franska goðinu og svo mynd frá leik Íslands og Frakklands í fyrrakvöld þar sem að öllu eldri og sterkbyggðari Teitur reynir að glíma við þennan besta handboltamann heims.

„Tíu ára áskorunin,“ skrifar Þuríður Ingvarsdóttir, móðir Teits, en bendir á að þeir félagarnir skiptu reyndar um búning fyrir seinni myndina.

Nicola Karabatic deilir þessum pósti Þuríðar á opinberri Facebook-síðu sinni með 680.000 fylgjendum sínum og er heldur betur ánægður með færsluna hjá mömmu Teits.

„Takk fyrir að deila þessu. Guð minn góður hvað tíminn flýgur og þessi litli drengur hefur svo sannarlega vaxið vel úr grasi,“ segir Karabatic og „taggar“ Teit í færslu sinni.

Ef myndin er akkurat tíu ára gömul er Teitur tíu ára á henni en Karabatic 25 ára. Þarna er Teitur enn í yngri flokkum Selfyssinga en Karabatic leikmaður Kiel og búinn að vinna frönsku deildina fjórum sinnum með Montpellier, franska bikarinn fjórum sinnum, þýsku deildina tvívegis og Meistaradeildina tvisvar sinnum.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×