Erlent

Forseti Kirgistans gæti neyðst til að klæðast höfuðfati

Atli Ísleifsson skrifar
Kirgisi með Ak-kalpak.
Kirgisi með Ak-kalpak. Getty
Kirgiska þingið er á góðri leið með að samþykkja lagafrumvarp sem mun neyða forseta landsins til að klæðast einkennishatti kirgisku þjóðarinnar þegar hann ferðast til útlanda. Filthatturinn, Ak-kalpak, er nú þegar með sinn eigin hátíðardag og stendur nú til að gera honum enn hærra undir höfði.

Lagafrumvarpið, sem einnig kveður á um að hægt verði að sekta einstaklinga fyrir að vanvirða hattinn, hefur nú verið afgreitt úr þingnefnd og má gera ráð fyrir að það verði tekið til frekari meðferðar á þinginu innan skamms.

Kirgiska þjóðin hefur einblínt mikið á þjóðarvitund og menningu í kjölfar óeirða í landinu árið 2010. Hluti þess snýr að Ak-kalpak, sem hefur verið með sinn eigin hátíðardag frá árinu 2016, eða 5. mars.

Tilurð lagafrumvarpsins má rekja til atviks þegar maður nokkur setti Ak-kalpak á hundinn sinn á hundasýningu í landinu árið 2017.

Hatturinn er jafnan hvítur og er sagður tákna tinda kirgisku fjallanna sem ætíð eru sagðir snævi þaktir.

Sooronbay Jeenbekov er forseti Kirgistan.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×