Viðskipti innlent

Hátt leiguverð í Breiðholti vekur athygli

Birgir Olgeirsson skrifar
Leiguverð hækkaði meira en kaupverð í fyrra.
Leiguverð hækkaði meira en kaupverð í fyrra. FBL/GVA
Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 8,3 prósent á milli áranna 2017 og 2018 á meðan kaupverð íbúða hækkaði um 5,4 prósent.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en þar segir að á tímabilinu 2011 til 2015 hafi leiguverð hækkað meira en kaupverð milli ára í þrjú skipti. Kaupverðið hefur hækkað meira en fjórum sinum.

Alls hefur leiguverðið hækkað um 77,2 prósent á þessum sjö árum og kaupverðið um 95,5 prósent. Meðalhækkun kaupverðs milli ára á þessu tímabili er því 10,1 prósent og meðalhækkun leiguverðs 8,8 prósent.

Markverður munur er á leiguverði á höfuðborgarsvæðinu og utan þess. Leiguverð á hvern fermetra fyrir tveggja herbergja íbúðir er nær alls staðar töluvert hærra en á þriggja herbergja íbúðum, nema á Akureyri. Munu á leiguverði tveggja og þriggja herbergja íbúða var mestur á Suðurnesjum og á Suðurlandi, um 30 prósent en er að meðaltali um 20 prósent á öllum svæðum.

Hæsta leiguverðið fyrir tveggja herbergja íbúðir var í Breiðholti og hæsta verðið fyrir þriggja herbergja íbúðir í austurhluta Reykjavíkur. Í Hagsjánni er nefnt að hátt leiguverð í Breiðholti veki athygli en sé tekið meðaltal síðustu þriggja mánaða ársins er leiguverð tveggja herbergja íbúða í Breiðholti það lægsta á höfuðborgarsvæðinu.

Hagfræðideild Landsbankans leggur áherslu á að um sé að ræða mikla dreifingu á bak við meðaltöl ýmissa stærða á fasteignamarkaði. Þá séu einnig töluverðar sveiflur á milli mælinga í einstökum mánuðir. Þessar aðstæður eigi ekki síður við um leigumarkaðinn en kaup- og sölumarkaðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×