Erlent

Whelan ekki sleppt gegn tryggingu

Samúel Karl Ólason skrifar
Paul Whelan í dómssal í morgun.
Paul Whelan í dómssal í morgun. AP/Pavel Golovkin
Paul Whelan, sem hefur verið handtekinn í Rússlandi og er grunaður um njósnir, fékk afhent USB-drif sem innihélt ríkisleyndarmál Rússlands. Þetta segir lögmaður Whelan en hann segist ekki hafa vitað að drifið innihéldi leynilegar upplýsingar. Bandaríkjamaðurinn var færður fyrir dómara í dag þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að hann skyldi vera áfram í haldi þar til réttarhöldin gegn honum fara fram.

Fregnir hafa áður borist af umræddu drifi. Rosbalt fréttaveitan sagði í byrjun mánaðarins að Whelan hefði hitt rússneskan borgara á hótelherbergi og fengið drifið afhent. Hann hefði svo verið handtekinn strax í kjölfari af því.

Sjá einnig: Whelan formlega ákærður fyrir njósnir



Whelan þvertekur fyrir að vera njósnari en fjölskylda hans segir hann hafa verið í Rússlandi vegna brúðkaups vinar hans úr landgönguliði Bandaríkjanna.

Lögmaðurinn Vladimir Zherebenkov segir Whelan staðráðinn í því að sanna sakleysi sitt og segist ekki hafa séð neinar sannanir fyrir því að Whelan sé njósnari. Whelan er með ríkisborgararétt í fjórum ríkjum. Bandaríkjunum, Bretlandi, Írlandi og Kanada. Fulltrúar allra ríkjanna voru viðstaddir réttarhöldin í dag sem fóru annars fram fyrir luktum dyrum.

Sérfræðingar segja mögulegt að Whelan hafi verið handtekinn svo yfirvöld í Rússlandi geti reynt að fá honum skipt fyrir Mariu Butina. Hún er rússneskur ríkisborgari sem hefur játað að ganga erinda Rússa í Bandaríkjunum.

Whelan fæddist í Kanada en á breska foreldra. Þau fluttust til bandaríkjanna þegar hann var barn. Hann starfar nú sem öryggisstjóri fyrir fyrirtækið BorgWarner.


Tengdar fréttir

Meintur njósnari sigldi um eyjar Breiðafjarðar

Íbúar í Stykkishólmi urðu heldur en ekki hissa þegar þeir sáu meintan bandarískan njósnara í haldi Rússa sýndan í umhverfi Breiðafjarðar í heimspressunni í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×