Handbolti

Aron Pálmars búinn að koma okkur oftast yfir á HM 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Getty/TF-Images
Aron Pálmarsson er sá leikmaður sem hefur komið íslenska handboltalandsliðinu oftast í forystu á HM í handbolta í Þýskalandi og Danmörku.

Ísland hefur alls komist 27 sinnum yfir í leikjunum sjö þar af ellefu sinnum í fyrsta leiknum á móti Króatíu. Ísland hefur komist yfir í öllum leikjum nema þeim síðasta á móti Frökkum þar sem íslensku strákarnir lentu 6-0 undir í upphafi leiks.

Aron hefur sjö sinnum komið Íslandi yfir á þessu HM en fjögur af þessum mörkum komu í Króatíuleiknum.

Aron kemur íslenska liðinu hins vegar ekki oftar yfir á þessu móti því hann er meiddur og verður ekki meira með.

Það vekur smá athygli að markahæsti leikmaður Íslands á móti, Arnór Þór Gunnarsson, hefur aðeins tvisvar komið Íslandi yfir á þessu HM og hafa fimm leikmenn liðsins gert það oftar.

Þannig hafa 4 af 11 mörkum Ómars Inga Magnússonar á þessum heimsmeistaramóti komið íslenska liðinu yfir eða 36 prósent marka hans.

Elvar Örn Jónsson er annars í öðru sæti á eftir Aron en fimm marka hans hafa komið Íslandi í forystu.

Bjarki Már Elísson og Arnar Freyr Arnarsson eru síðan í 4. til 5. sætinu á eftir Ómari Inga en þeir hafa báðir þrisvar sinnum komið Íslandi yfir.

 

Flest mörk sem hafa komið Íslandi yfir í leikjunum á HM 2019:

Aron Pálmarsson 7

Elvar Örn Jónsson 5

Ómar Ingi Magnússon 4

Bjarki Már Elísson 3

Arnar Freyr Arnarsson 3

Arnór Þór Gunnarsson 2

Gísli Þorgeir Kristjánsson 1

Sigvaldi Guðjónsson 1

Ísland komst 11 sinnum yfir á móti Króatíu, einu sinni yfir á móti Spáni, tvisvar yfir á móti Barein, sjö sinnum yfir á móti Japan, fjórum sinnum yfir á móti Makedóníu og tvisvar yfir á móti Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×