Erlent

Fundu barnið sem óttast var að hefði verið rænt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr Hisingen hverfinu í Gautaborg.
Úr Hisingen hverfinu í Gautaborg. Wikicommons
Sex mánaða gamalt barn sem óttast var að hefði verið rænt fyrir utan leikskóla í Gautaborg í Svíþjóð er fundið heilt á húfi. Lögregla blés til mikillar leitar en óttast var að barninu hefði verið rænt. Það mun hins vegar hafa fundist í hverfinu og er við hestaheilsu. SVT greinir frá. Kona um fertugt hefur verið handtekin grunuð um aðild að málinu.

Móðir barnsins sagðist hafa skilið sex mánaða gamla dóttur sína eftir í barnavagni fyrir utan leikskóla í Hisingen-hverfinu í Gautaborg. Móðirin skrapp inn til að sækja annað barn sitt og þegar hún kom aftur út var barnið horfið.

Talsmaður lögreglu sagði konuna hafa verið inni í leikskólanum í fimm til tíu mínútur. Þegar hún kom út var barnavagninn horfinn og barnið líka.

Viðamikil leit hófst að barninu. Auk lögreglu komu leitarhundar, björgunarsveitir og þyrlur að leit. Þá voru leigubílstjórar látnir vita og sömuleiðis starfsmenn almenningssamgangna.

Lögregla var látin vita af því að barnið væri horfið um hálftíma eftir að móðirin kom út af leikskólanum. Þau höfðu sjálf leitað í hálftíma áður en þau ákváðu að láta lögreglu vita.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×