Erlent

Vonast til að ná til Julen á morgun

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Níu dagar eru frá því að tveggja ára gamall drengur, Julen Rosello, féll í borholu skammt frá Malaga á Spáni. Hún var ólöglega boruð og er um hundrað metra djúp og ekki nema um 25 til 30 sentímetrar í þvermál.

Undanfarið hafa björgunaraðilar unnið að því að grafa skáhallt að botni borholunnar og í dag hefur verið borað samsíða henni. Reiknað er með að því ljúki á morgun.

„Við metum það sem svo að aðgerðin geti klárast eftir 12 til 14 klukkustundir,“ sagði Angel Garcia, stjórnandi aðgerða, á blaðamannafundi í morgun. Að því loknu tekur við lokafasi aðgerðarinnar. Reyndir námuverkamenn verða látnir síga niður og grafa þeir göng að þeim stað þar sem Julen er talinn vera á. „Á hádegi á morgun getum við hafist handa við að grafa lárétt göng til drengsins.“

Spánverjar hafa fylgst harmþrungnir með málinu og hafa hundruðir einstaklinga boðið fram sjálfboðavinnu sína til að aðstoða við björgunarstörf. Björgunaraðilar eru ekki bjartsýnir enda níu dagar frá því að drengurinn féll í holuna en engar vísbendingar hafa fengist um það hvort hann sé á lífi eða ekki. Atvikið er mikill fjölskylduharmleikur en foreldrar drengsins misstu annan son sinn, eins og hálfs árs, af slysförum fyrir tveimur árum síðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×