Handbolti

Nýliðarnir lært margt á HM: Miklu meiri hraði en heima í Val

Tómas Þór Þórðarson í Köln skrifar
Ýmir Örn Gíslason er á sínu öðru stórmóti en í fyrsta sinn á HM.
Ýmir Örn Gíslason er á sínu öðru stórmóti en í fyrsta sinn á HM. vísri/getty
HM-nýliðar íslenska landsliðsins hafa allir stimplað sig rækilega inn á einn eða annan hátt. Þeir fagna tækifærinu að þreyta frumraun sína á stærsta sviðinu og safna í reynslubankann.

Alls eru níu leikmenn í íslenska landsliðinu sem lýkur leik á HM á morgun gegn Brasilíu sem eru að spila á heimsmeistaramóti í fyrsta sinn og sjö eru á sínu fyrsta stórmóti. Við spurðum þrjá af þessum nýliðum hvað þeir eru búnir að læra af dvölinni í mekka handboltans.

„Það er að koma sér inn á þetta stóra svið og fá reynslu á móti svona ógeðslega góðum liðum eins og Frakklandi og Þýskalandi,“ segir Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson sem kom óvænt inn í hópinn á lokametrunum fyrir mótið.

„Það er bara frábært að fá að spila svona leiki og sjá hvernig þetta er. Þetta er allt annar hraði og allt önnur harka heldur en þar sem ég er að spila. Þetta eru rosalega mikilvægar mínútur sem maður er að fá og maður verður að nýta hverja einustu,“ segir Teitur Örn.

Gísli Þorgeir Kristjánsson og Teitur Örn EInarsson eru báðir á sínu fyrsta stórmóti.vísri/getty
Gísli Þorgeir Kristjánsson yfirgaf Olís-deildina síðasta sumar eins og Teitur og spilar nú með Kiel í Þýskalandi. Hann, eins og Selfyssingurinn, er á sínu fyrsta stórmóti.

„Það er bara að fá tilfinninguna fyrir þessu. Mér finnst það mjög mikilvægt. Ég er búinn að læra mikið af þessum stóru leikjum. Það eru ákveðnar aðstæður sem maður er búinn að læra af og veit núna hvað maður á að gera og ekki að gera. Þetta mót er búið að hjálpa okkur nýliðunum að stimpla sig enn þá frekar inn í liðið og gera enn þá betur fyrir landsliðið,“ segir Gísli Þorgeir.

Valsmaðurinn Ýmir Örn Gíslason er á sínu öðru stórmóti en fyrsta heimsmeistaramóti. Hann hefur þurft að breyta leik sínum töluvert á undanförnum misserum og viðurkennir að hann þarf ýmislegt að læra.

„Það er alveg þó nokkur slatti. Það er náttúrlega bara eitt og hálft ár síðan að ég byrjaði á línunni þannig að það er fullt. Ég þarf að standa blokkina betur, ég þarf líka meiri leikskilning inn á milli. Hann kemur. Í vörninni þarf maður að sleppa nógu snemma til að vera ekki að hanga aftan í mönnum. Það er meiri hreyfanleiki og talandi og keyra þessi hraðaupphlaup. Maður þarf að vera enn fljótari til baka því tempóið er mikið hærra. Mér finnst við spila hratt í Val en þetta er ekki nálægt því. Það er aðlalega hversu leikurinn er. Það er málið,“ segir Ýmir Örn Gíslason.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá hér að neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×