Innlent

Fundur hafinn hjá ríkissáttasemjara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá fundi hjá sáttasemjara í liðinni viku.
Frá fundi hjá sáttasemjara í liðinni viku. vísir/vilhelm
Sáttafundur í kjaradeilu VR, Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins hófst í húsakynnum ríkissáttasemjara núna klukkan 10.

Fresta þurfti fundi á mánudag og þriðjudag vegna veikinda. Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, heldur fundinn í dag en fyrir helgi tilnefndi hún tólf manns í hóp aðstoðarsáttasemjara á grundvelli laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Munu framvegis einnn eða fleiri úr þeim hópi vera kallaður til aðstoðar í hverju sáttamáli hjá ríkissáttasemjara.

VR, Efling og Verkalýðsfélag Akraness vísuðu kjaradeilu sinni við SA til sáttasemjara skömmu fyrir jól og Verkalýðsfélag Grindavíkur gerði svo slíkt hið sama núna í byrjun janúar.

Fundurinn í dag er sá fjórði hjá sáttasemjara. Óljóst er hvað hann mun standa lengi en spurning er hvort að tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum sem kynntar voru í gær verði til umræðu.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagði í gær að tillögurnar væru innlegg í kjaraviðræðurnar og þær væru til mikilla bóta verði þeim framfylgt.

Verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á húsnæðismálin í kjaraviðræðunum og kallað eftir lausnum á þeim mikla vanda sem steðjar að á húsnæðismarkaði.

Sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að tillögur átakshópsins gætu reynst lykilatriði í kjaraviðræðunum. Frétt Stöðvar 2 um málið má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×