Erlent

Pete Buttigieg sækist eftir tilnefningu Demókrataflokksins

Samúel Karl Ólason skrifar
Pete Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana.
Pete Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana. AP/Nam Y. Huh
Pete Buttigieg, borgarstjóri South Bend í Indiana, ætlar að sækjast eftir tilnefningu Demókrataflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna. Þetta tilkynnti Buttigieg, sem er 36 ára gamall, á Twitter í morgun.

Hann var kosinn borgarstjóri árið 2011, þá einungis 29 ára gamall og varð hann þá yngsti borgarstjóri Bandaríkjanna í borg með fleiri en hundrað þúsund íbúa. Hann þjónaði í flota Bandaríkjanna og tók 7 mánaða leyfi frá embætti sínu árið 2014 og var sendur til Afganistan. Á vefsvæði sínu stærir Buttigieg sig af því að Washington Post hafi eitt sinn nefnt hann „áhugaverðasta borgarstjóra sem þú hefur aldrei heyrt um“ og því að Barack Obama, fyrrverandi forseti, kallaði hann eitt sinn einn af vonarstjörnum Demókrataflokksins.



Buttigieg útskrifaðist úr Harvard og býr í South Bend ásamt eiginmanni sínum. Nái hann að tryggja sér tilnefningu Demókrataflokksins, sem þykir ólíklegt að svo stöddu, verður hann fyrsti samkynhneigði maðurinn til að fá tilnefningu annars stóru flokkanna.



Buttigieg bauð sig fram til embættis formanns framkvæmdastjórnar Demókrataflokksins árið 2017. Hann dró framboð sitt þó til baka þegar ljóst varð að hann myndi ekki vera kjörinn til starfsins. Hann tilkynnti svo í síðasta mánuði að hann ætlaði ekki að bjóða sig aftur fram sem borgarstjóra.

Í myndbandi sem hann birti með tilkynningu sinni segir Buttigieg að Bandaríkin þurfi á nýju upphafi að halda.

Enn sem komið er hafa nokkrir opinberað að þeir ætli að sækjast eftir tilnefningu Demókrataflokksins en vitað er til þess að fjölmargir eru að íhuga framboð. Meðal þeirra sem hafa og búist er við að muni bjóða sig fram eru þekktari aðilar sem njóta meiri stuðnings en Buttigieg. Öll eru þau einnig eldri en hann.

Í myndbandinu hér að ofan segir Buttigieg þó að hann tilheyri kynslóð sem sé að stíga fram í sviðsljósið.

„Við erum kynslóðin sem höfum lifað í gegnum skotárásir í skólum, sem hafa barist í stríðum í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana og við erum kynslóðin sem munum vera fyrst til að þéna minna en foreldrar okkar ef við grípum ekki til einhverra breytinga. Við getum ekki bara pússað kerfi sem er svo bilað.“


Tengdar fréttir

Kamala Harris býður sig fram til forseta Bandaríkjanna

Bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Kamala Harris tilkynnti í dag að hún bjóði sig fram til forseta Bandaríkjanna. Hinn 54 ára gamli demókrati hefur þótt ein helsta vonarstjarna demókrata undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×