Leik lokið: Brasilía - Ísland 32-29 | Slæmt tap í síðasta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ýmir Örn Gíslason gengur niðurlútur af velli.
Ýmir Örn Gíslason gengur niðurlútur af velli. vísir/epa
Ísland lauk keppni á HM í handbolta í dag með þriggja marka fyrir Brasilíu. Frammistaða strákanna okkar olli vonbrigðum en þeir voru talsvert frá sínu besta í dag.

Brasilíumenn fengu draumabyrjun í leiknum. Skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins og héldu hreinu fyrstu átta mínúturnar. Á þessum kafla var leikur Íslands einfaldlega í molum og þurfti Guðmundur Guðmundsson að taka leikhlé.

Þrír byrjunarliðsmenn voru teknir af velli og það hleypti smá lífi í íslenska liðið. Meðal þeirra var Björgvin Páll Gústavsson sem kom svo aftur inn eftir 20 mínútna leik, þar sem að Ágúst Elí Björgvinsson náði sér heldur ekki á strik.

Björgvin Páll varði nokkur mikilvæg skot eftir að hann kom inn á og það kom íslenska liðinu loksins almennilega í gang. Elvar Örn Jónsson nýtti sín færi ágætlega og Ómar Ingi Magnússon var klókur að fiska víti.

Ísland kom sér því aftur inn í leikinn og var jafnt í lok fyrri hálfleiks, 15-15. Ísland byrjaði svo með boltann í síðari hálfleik og fékk því kjörið tækifæri til að komast aftur yfir. En allt kom fyrir ekki. Tveir tapaðir boltar á fyrstu 50 sekúndunum gáfu tóninn. Brasilíumenn náðu aftur undirtökunum í leiknum.

Inn á milli náðu okkar menn að komast aftur á rétt spor og í tvígang náði Ísland að jafna metin í síðari hálfleik. En eins og áður tókst ekki að fylgja því eftir og gengu Brasilíumenn á lagið og voru með algera yfirburði á lokakafla leiksins.

Vörn Íslands var sérstaklega slæm á köflum og bauð Brasilíumönnum upp á mörg galopin færi. Þá var markvarslan langt undir væntingum á löngum köflum, sem hjálpaði ekki til. Hratt uppspil gekk vel og hélt Íslandi lengi vel inni í leiknum en að sama skapi var uppstilltur sóknarleikur slæmur og skilaði afar litlu.

Frekari umfjöllun er væntanleg á Vísi innan skamms.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira