Erlent

Bryan Singer sakaður um kynferðisbrot gegn fjórum piltum

Birgir Olgeirsson skrifar
Bryan Singer.
Bryan Singer. vísir/getty
Bandaríski leikstjórinn Bryan Singer er sakaður um að brjóta kynferðislega gegn þrettán ára dreng á tökustað kvikmyndarinnar Apt Pupil árið 1997. Er greint frá þessu í langri grein sem birt er í The Atlantic í dag.

Fjórir menn stíga þar fram og saka Singer um að hafa brotið gegn sér, en mennirnir voru allir á táningsaldri þegar brotið var á þeim. Lögmaður Singers, Andrew B. Brettler, hrekur þessar frásagnir og segir Singer aldrei hafa verið handtekinn eða kærðan fyrir nokkurn glæp. Singer neiti þar að auki að hafa stundað kynmök, eða að hafa áhuga á því, við pilta undir lögaldri.

Í greininni er fjallað um brot sem eiga að hafa átt sér stað seint á tíunda áratug síðustu aldar þegar Singer var rétt rúmlega þrítugur.

Victor Valdovinos segist hafa verið þrettán ára gamall þegar Singer greip í kynfæri hans eftir að hafa ráðið hann sem aukaleikara í myndinni Apt Pupil. Segir Valdovinos að Singer hafi sagt við hann að hann væri mjög myndarlegur og að hann þráði heitt að vinna með honum.

„Ég á laglegan Ferrari. Ég skal sjá um þig,“ hefur Valdovinos eftir Singer.

Lögmaður Singers segir að engin gögn styðji þá fullyrðingu Valdovinos að hann hafi verið aukaleikari í myndinni. Faðir Valdovinos segist þó muna eftir að hafa skutlað honum á tökustað og vitni segja Singer hafa átt Ferrari þegar tökur myndarinnar stóðu yfir.

Áður hafði Singer þurft að svara fyrir ásakanir þess efnis að piltar undir lögaldri hafi verið látnir afklæðast fyrir sturtuatriði í myndinni.


Tengdar fréttir

Neitar því að hafa nauðgað 17 ára gömlum pilti

Leikstjórinn Bryan Singer neitar ásökunum um að hafa nauðgað 17 ára gömlum pilti á snekkju árið 2003 en samkvæmt dómskjölum sem Deadline komst yfir kærði Cesar Sanchez-Guzman leikstjórann í gær fyrir kynferðislegt ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×