Erlent

Mótmæli gegn meintum valdaræningja

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tugþúsundir mótmæltu ríkisstjórn Maduro í Venesúela.
Tugþúsundir mótmæltu ríkisstjórn Maduro í Venesúela. NordicPhotos/AFP
Stjórnarandstaðan í Venesúela efndi í gær til fjöldamótmæla til þess að mótmæla ríkisstjórn Nicolás Maduro forseta. Fremstur í flokki var Juan Guaidó, 35 ára þingmaður og nýr þingforseti, sem venesúelska þingið gerði fyrr í mánuðinum að starfandi forseta þar sem kjörtímabil Maduro var runnið út og þingið álítur kosningar síðasta árs ógildar.

Mótmæli höfðu reyndar þegar hafist um nóttina á að minnsta kosti sextíu stöðum. Samkvæmt Reuters lenti mótmælendum saman við lögreglu og lést að minnsta kosti einn þeirra. Þrjátíu voru handtekin.

Maduro er hins vegar ósammála þessu mati. Hann hefur þegar látið setja sig inn í embætti á ný enda lítur hann svo á að hið nýja stjórnlagaþing, sem hann lét stofna árið 2017 eftir að stjórnarandstaðan náði meirihluta á gamla þinginu, sé æðra. Sósíalistaflokkur Maduro stóð því fyrir gagnmótmælum.

Stjórnarandstaðan nýtur stuðnings Bandaríkjanna, Samtaka Ameríkuríkja og Lima-hópsins, sem stofnaður var til að stuðla að friðsamlegri lausn á krísunni í Venesúela. Bandaríkjaforseti viðurkenndi í gær Guaidó opinberlega sem forseta landsins. Maduro tilkynnti í kjölfarið að hann ætlaði að slíta samskiptum við Bandaríkin.

Guaidó og fylgismönnum hefur ekki tekist að styrkja stöðu sína mikið á þeim tveimur vikum sem liðnar eru frá því hann var gerður að starfandi forseta. Stjórnarandstaðan telur vænlegast að leita aðstoðar hersins. Til þess hefur þeim hermönnum sem snúast gegn Maduro verið boðin friðhelgi. Samkvæmt Reuters hafa hermenn ríka ástæðu til þess að vera reiðir vegna þess efnahagshrunsins s í Venesúela. Kaupmáttur þeirra, líkt og annarra borgara, hefur orðið nærri enginn vegna gríðarlegrar verðbólgu.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×