Viðskipti innlent

„Áður en öndin talar eða gengur þá verður að finna öndina“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kjartan Jónsson er sakaður um að hafa lekið innherjaupplýsingum Icelandair í vin sinn.
Kjartan Jónsson er sakaður um að hafa lekið innherjaupplýsingum Icelandair í vin sinn. Vísir/Vilhelm

Jónas Friðrik Jónsson, verjandi Kjartans Jónssonar, segir að ákæruvaldinu hafi mistekist að renna stoðum undir nokkur lykilatriði, sem þyrftu að vera til staðar svo að hægt sé að sakfella skjólstæðing sinn. Kjartani er gefið að sök að hafa lekið innherjaupplýsingum úr Icelandair Group í æskuvin sinn, Kristján Georg Jósteinsson, sem hann gat síðan nýtt sér til að hagnast á hlutabréfamarkaði.



Aðalmeðferð í innherjasvikamáli Icelandair var framhaldið í Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi, en dagurinn hófst á málflutningi saksóknarans sem fer fram á 2 til 2 og hálfs árs fangelsi yfir Kjartani.



Jónas er þó eðli máls samkvæmt á öðru máli og fór fram á að Kjartan yrði sýknaður af öllum ákæruliðum. Kröfu sína byggði hann á því sem hann sagði vera gloppur í málflutningi ákæruvaldsins. Varði hann töluverðum tíma í að útskýra fyrir viðstöddum þær forsendur sem þyrftu að vera til staðar, svo hægt væri að sakfella í máli sem þessu.



Til að mynda þyrfti að byrja á því að sýna fram á að innherjaupplýsingar hafi yfirhöfuð verið til staðar, það þyrfti að tilgreina með nákvæmum hætti hverjar þær voru og hvernig þær urðu til. Auk þess þyrfti að sanna að hinn ákærði hefði búið yfir þessum upplýsingum og að afhending á þeim til þriðja aðila hefði raunverulega átt sér stað. Auk þess þyrftu upplýsingarnar að vera nákvæmar, ekki opinberar og taldar líklegar til að hafa áhrif á markaðsverð.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari sækir málið gegn Kjartani, Kristjáni Georgi og Kjartani Bergi.Vísir/Vilhelm

Í stuttu máli taldi Jónas að ákæruvaldinu hefði mistekist að sýna með óyggjandi hætti fram á þessa þætti. Þar að auki lægi ekki fyrir hvað Kjartan á að hafa grætt mikið á meintum innherjabrotum. Ekki þýddi að reiða sig á þær „óbeinu sannanir“ sem saksóknara var tíðrætt um í máli sínu í morgun. Staðfestingar þyrftu að liggja fyrir. 



„Áður en öndin talar eða gengur þá verður að finna öndina,“ sagði Jónas, og vísaði þar beint til líkingar saksóknara í morgun. 



Þannig þýddi ekki fyrir saksóknara að mati Jónasar að vísa í einstaka tölvupósta og „kryptískar setningar.“ Hóf Jónas þá að hrekja ýmsa þá tölvupósta sem ákæruvaldið hafði varpað upp og sagði ekkert í þeim póstum mætti flokka sem innherjaupplýsingar. „Þessir tölvupóstar einir og sér eru ekki að sýna eitt eða neitt,“ eins og Jónas komst að orði. Því væri algjörlega ósannað að afhending á innherjaupplýsingum hafi átt sér stað í þessum máli – þrátt fyrir einstaka, óútskýrðar fullyrðingar um að væntanleg uppgjör verði góð.



Þá efaðist Jónas um það að Kjartan Jónsson gæti, samkvæmt skilgreiningu, talist fruminnherji – sem verði „að jafnaði“ að hafa aðgang að innherjaupplýsingum. Alls væru 72 einstaklingar flokkaðir sem innherjar hjá Icelandair og taldi Jónas liggja í augum uppi að allt þetta fólk hefði ekki aðgang, að jafnaði, að öllum mikilvægum gögnum um rekstur félagsins sem gætu haft áhrif á gengi þess í Kauphöllinni.

Kjartan Jónsson hafði sem fruminnherji aðgang að lykilupplýsingum hjá Icelandair Group.Vísir/Vilhelm

Að sama skapi gaf Jónas lítið fyrir þau símtalayfirlit sem saksóknari hafði varpað upp og sýndu fram á regluleg símtöl milli þeirra Kristjáns Georgs og Kjartans á tímabilinu – jafnvel í kringum væntanlega uppgjör. „Það að vinir til áratuga tali reglulega saman í síma sýnir ekki fram á afhendingu innherjaupplýsingar,“ sagði Jónas.



„Lengd eða dagsetning símtalanna sannar það ekki heldur,“ þó svo að ákæruvaldið hafi reynt að halda öðru fram. Ekki hafi þannig verið sýnt fram á að afhending á innherjaupplýsingum hafi raunverulega átt sér stað.



Þá þótti Jónasi varhugavert að ekkert hafi verið fjallað um Icelandair Group eða starfsemi hans í máli ákæruvaldsins. Icelandair Group sé stórfyrirtæki, sem samanstendur af níu viðskiptaeiningum. Því hafi fjölmargir rekstrar- og áhættuþættir áhrif á gengi félagsins; eins og olíuverð, gengi krónunnar, átök á vinnumarkaði og svo framvegis. Því væri fulllangt seilst að telja að tölur um farþegaflutninga, sem Kjartan bjó yfir, gætu einar og sér haft þau gríðarlegu áhrif á gengi hlutabréfa í Icelandair eins og ákæruvaldið lét í veðri vaka.



Jónas vildi að sama skapi ekki gefa of mikið úr þessum farþegatölum. Taflan, sem Kjartan hafði áframsent á samstarfsmenn sína, tæki alla jafna miklum breytingum enda væru tölurnar sem hún byggði á mikill hreyfingu. Samstarfsmaður hans hafi þannig staðfest í vitnaleiðslu í gær að það þyrfti að vinna nánar úr töflunni áður en áhrif hennar á tekjuspá félagsins myndu liggja fyrir.



Þar að auki ætti ekki að lesa of mikið í þann gjaldeyri sem fannst við húsleit á heimili Kjartans. Hreyfingar á bankareikningum hans styddu jafnframt skýringar Kjartans um að hann hafi sjálfur tekið út þann gjaldeyrinn í tengslum við utanlandsferðir sem hann fór í.



Næstur tekur Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Kristjáns Georgs, til máls.


Tengdar fréttir

Innherjasvik í Icelandair: „Ef það lítur út eins og önd...“

Að sögn saksóknara byggði sönnunarfærsla í svona málum því oftar en ekki á óbeinni sönnun, sem telst þó fullgild sönnun samkvæmt íslenskum lögum. Ef það lítur út eins og önd, labbar eins og önd og kvakar eins og önd – þá er það líklega önd, eins og Finnur komst að orði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×