Körfubolti

Missti annan fótinn sinn þriggja ára en spilar körfubolta í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Körfuboltastelpur í Scarborough fagna. Myndin tengist ekki fréttinni.
Körfuboltastelpur í Scarborough fagna. Myndin tengist ekki fréttinni. Vísir/Getty
Amanda Merrell er ung körfuboltakona í Bandaríkjunum sem hefur vakið athygli hjá stórum fjölmiðlum eins og Washington Post og Chicago Tribune þrátt fyrir að vera ennþá bara að spila í menntaskóla.

Amanda Merrell fékk krabbamein kornung og missti annan fótinn þegar hún var þriggja ára gömul. Á sama tíma þurfti hún að fara fjórtán sinnum í lyfjameðferð.





Amanda komst í gegnum þetta allt saman og fótaleysið stoppaði hana ekki frá því að fara að stunda körfubolta í skólanum sínum.

Það sem þykir fréttnæmt með Amöndu Merrell er að hún er ekki bara að leika sér í körfubolta heldur keppir hún með Huntingtown skólaliðinu og gefur þar ekkert eftir.

Washington Post segir á dramatískan hátt frá því þegar Amanda Merrell var að byrja að spila með skólanum og mótherjarnir vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka henni.

Þeir vildi ólmir hjálpa henni á fætur þegar hún datt en það var aðeins til að byrja með. Eftir að hún setti niður þrjár körfur í röð þá sáu þeir enga ástæðu lengur til að hjálpa henni á fætur. Hún var orðin eins og hver annar andstæðingur.





Amanda Merrell er nú sextán ára gömul og hún er ekkert að fara að hætta í körfuboltanum.

Hún er líka góð í körfubolta eins og sést á því að hún var stigahæsti leikmaður liðsins síns á síðustu leiktíð. Þá var hún að spila með varaliði skólans en í vetur hefur hún fengið tækifæri með aðalliðinu.

Það hefur síðan kallað á athygli fjölmiðlanna sem þykir saga hennar og aðstæður áhugaverðar. Hún spilar með gervifót sem nýtist henni vel en það takmarkar vissulega mikið það sem hún getur gert inn á vellinum.

Það er líka gleðiefni að sjá unga konu sem hefur sigrast á miklu mótlæti og lætur ekkert stoppa sig, ekki einu sinni það að vera körfuboltakona með einn „lifandi“ fót.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×