Erlent

Ólíklegt að sátt náist á Bandaríkjaþingi í kvöld

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana, í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana, í öldungadeild Bandaríkjaþings. EPA/Jim Lo Scalzo
Þingmenn öldungadeildar Bandaríkjaþings greiða atkvæði í kvöld um tvö frumvörp sem gætu bundið enda á lokun alríkisstofnana þar í landi. 

Um fjórðungur alríkisstofnana hefur verið lokaður í 33 daga og um 800 þúsund alríkisstarfsmenn hafa ekki mætt til vinnu í rúman mánuð og þéna engin laun á meðan. Lokunina má rekja til deilna Repúblikana og Demókrata um fjármögnun landamæramúrs Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Leiðtogar flokkanna tveggja hafa lagt fram hvor sitt frumvarpið til að freista þess að binda enda á lokunina. Afar ólíklegt er að þau fari í gegn um þingið líkt og Vísir greindi frá í vikunni

Frumvarp Repúblikana felur í sér 5,7 milljarða dollara fjármögnun landamæramúrsins í skiptum fyrir þriggja ára vernd fyrir um 700 þúsund börn ólöglegra innflytjenda, svokallaðan DACA-hóp, og rúmlega 300 þúsund ólöglega innflytjendur sem eru í Bandaríkjunum af ýmsum ástæðum, til dæmis af mannúðarástæðum.

Frumvarp Demókrata felur í sér fjármögnun alríkisstofnana til 8. febrúar til að skapa svigrúm til að geta samið við forsetann um fjármögnun landamæragæslunnar án þess að það bitni á starfsfólki ríkisins og þjónustu þess.

Repúblíkanar eru með 53 atkvæði í öldungadeildinni og Demókratar 47 en 60 atkvæði þarf til að ná öðru hvoru frumvarpinu í gegn um deildina.

Þá hefur lokun alríkisstofnana einnig haft áhrif á fyrirhugaða stefnuræðu forsetans. Stefnuræðan átti samkvæmt dagskrá að fara fram þriðjudaginn 29. janúar. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefur ákveðið að leggja ekki fram ályktun í þinginu sem heimilar forsetanum að flytja stefnuræðuna þar til alríkisstofnanir hafa verið fjármagnaðar.

Donald Trump Bandaríkjaforseti brást ókvæða við tíðindunum en féllst í gærkvöldi á það að fresta ræðunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×