Skoðun

Allskonar ábyrgð

María Bjarnadóttir skrifar
Samfélagið er fullt af fólki sem er að axla allskonar ábyrgð alla daga. Koma börnunum í skólann og mæta á réttum tíma í vinnuna. Borga reikninga og þvo bílinn. Sum ábyrgð er flókin, þung og erfið; önnur er dásamleg blessun. Stundum er hún svo hversdagsleg að enginn tekur eftir henni eða því að það sé verið að axla hana. Það vekur þó oft athygli þegar fólk sem ber ábyrgð rífur hana af öxlum sér með öskrum og látum.

Þetta á sérstaklega við þegar viðkomandi gegnir trúnaðarstörfum gagnvart almenningi. Til viðbótar við venjulegu ábyrgðina sem fylgir mannlegu samfélagi er ábyrgð stjórnmálafólks svipuð því sem gildir um ríkisvaldið; þrígreind. Siðferðileg, pólitísk og lagaleg ábyrgð. Rétt eins og með greinar ríkisvaldsins er góð regla að skýra mörkin á milli þeirra þriggja. Siðferðileg ábyrgð þarf ekki að kalla á lagalega ábyrgð og pólitíska ábyrgð er hægt að axla án þess að virkja hinar. Ein þarf ekki að þýða allar.

Nokkrir þingmenn sem lentu í vandræðum með eigin axlastöðu nýlega hefðu betur áttað sig á þessu. Í stað þess að viðurkenna greinarmuninn á ábyrgð sem þeir geta hugsað sér að axla og þeirri sem 90% þjóðarinnar telja þá eiga að axla, keppast þeir við að benda á ábyrgð allra nema sjálfra sín og telja sig lausa við alla ábyrgð af stöðu sem þeir hafa þó skapað sjálfir. Vissulega er metnaðarfullt að þeir hafa valið að beita blandaðri aðferð við þetta. Þeir nota ekki aðeins hina klassísku smjörklípuaðferð, heldur hafa þeir einnig reynt að klína lagalegri ábyrgð á annað fólk. Samhliða grafa þeir svo undan lýðræðislegum ferlum sem þeir hafa samþykkt sjálfir. Satt best að segja virðist þetta ekki sérstaklega ábyrgt. Það er þó ekki víst að þetta klikki hjá þeim.




Skoðun

Sjá meira


×