Sport

Djokovic fór illa með Nadal á opna ástralska

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tveir magnaðir íþróttamenn
Tveir magnaðir íþróttamenn vísir/getty
Novak Djokovic vann sigur á opna ástralska meistaramótinu í tennis í sjöunda sinn á ferlinum í morgun þegar hann fór illa með Spánverjann Rafael Nadal í úrslitaleik mótsins.

Leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu enda fara þarna tveir af sigursælustu tennisspilurum sögunnar. Serbinn hafði mikla yfirburði í þetta skiptið og fór að lokum svo að Djokovic lagði Nadal í þremur settum, 6-3, 6-2 og 6-3.

Þetta var 53.skiptið sem þeir mætast en báðir hafa átt farsælan feril. Þeir mættust í úrslitum á sama móti árið 2012 og úr varð lengsti úrslitaleikur sögunnar þar sem þeir spiluðu í 5 klukkustundir og 53 mínútur. Leikurinn í dag var töluvert styttri eða rétt rúmar tvær klukkustundir.

Hinn 31 árs gamli Djokovic heldur þar með áfram að skrá sig á spjöld tennissögunnar en enginn hefur unnið opna ástralska meistaramótið jafn oft og hann. Þeir Roger Federer og Roy Emerson voru jafnir Djokovic fyrir mótið með sex sigra en Federer hefur unnið mótið undanfarin tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×