Innlent

Bæjarráðið jákvætt í garð alþjóðaflugvallar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Páll Bjarnason, verkfræðingur hjá Eflu bendir hér á hugsanlega staðsetningu flugvallarins verði af byggingu hans í Stokkseyrarmýri.
Páll Bjarnason, verkfræðingur hjá Eflu bendir hér á hugsanlega staðsetningu flugvallarins verði af byggingu hans í Stokkseyrarmýri.
Bæjarráð sveitarfélagsins Árborgar hefur lýst yfir jákvæðri afstöðu til þess að fram fari rannsóknir á „náttúrulegum, viðskiptalegum og lagalegum forsendum þess að alþjóðaflugvelli verði fundinn staður í Árborg,“ að því er fram kemur í fundargerð ráðsins.

Tilefni bókunarinnar er bréf frá lögfræðingi óstofnaðs félags um verkefnið þar sem óskað er eftir því að sveitarfélagið upplýsi um afstöðu sína um framhald verkefnisins.

„Áður en haldið er áfram með verkefnið og ráðist er í kostnaðarsamar rannsóknir á jarðvegi, veðri, umhverfi og öðrum þáttum sem kynntir voru á íbúafundinum [8. janúar sl.], er nauðsynlegt að formleg afstaða sveitarfélagsins liggi fyrir,“ segir í bréfinu.

Í bókun bæjarráðs er minnt á að endurskoðun á aðalskipulagi Árborgar liggi fyrir dyrum og í þeirri vinnu sé mikilvægt að horfa til allra framtíðarmöguleika sveitarfélagsins.

„Endanleg afstaða sveitarfélagsins til þess hvort byggður verði slíkur alþjóðaflugvöllur ræðst svo af niðurstöðum aðalskipulagsvinnu, vilja íbúanna og hagsmunum samfélagsins,“ segir í bókun bæjarráðs.




Tengdar fréttir

Kanna áhuga á alþjóðaflugvelli í Árborg

Sveitarfélagið Árborg kannar nú möguleika á að koma upp Alþjóðaflugvelli í Flóanum og hyggst undirrita viljayfirlýsingu þess efnis. Landeigendur hafa verið boðaðir á fund með forystumönnum sveitarfélagsins þar sem kynnt verða áform um að hefja rannsókn á kostum og göllum staðsetningar alþjóðaflugvallar í Árborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×