Körfubolti

Skrifaði NBA-söguna í nótt og gladdi síðan unga stúlku eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry, skórnir og stúlkan.
Stephen Curry, skórnir og stúlkan. Mynd/SAMSETT
Stephen Curry setti ný met í NBA-deildinni í nótt þegar hann skoraði sinn tvöhundruðasta þrist á þessari leiktíð. Hann fékk þó ekki minni athygli fyrir það sem hann gerði eftir leikinn.

Þetta er sjöunda tímabilið í röð þar sem Curry skoraði tvö hundruð þrista eða fleiri og því hefur enginn NBA-leikmaður náð áður.

Curry hefur mest skorað 402 þriggja stiga körfur á einu tímabili en hann hefur tvisvar farið yfir þrjú hundruð þrista á einni leiktíð.





Curry náði líka að skora tvö hundruð þrista í innan við 40 fyrstu leikjum sínum á leiktíðinni og það er líka eitthvað sem enginn NBA-leikmaður hefur náð áður.

Stephen Curry var að spila sinn 39. leik á leiktíðinni en hann missti af ellefu leikjum í nóvember vegna meiðsla.

202 þristar í 39 leikjum þýða 5,2 að meðaltali í leik en Curry hefur mest skorað 5,1 að meðaltali í leik á einu tímabili en það var 2015-16 tímabilið.





Curry endaði leikinn með 26 stig á 27 mínútum þar sem hann hitti úr 6 af 8 þriggja stiga skotum sínum.

Stephen Curry vakti samt ekki minni aðdáun fyrir það sem hann gerði eftir leikinn á móti Indiana Pacers. Eftir leik þar sem hann setti tvö NBA-met þá ákvað hann að gefa skóna sína.

Curry tók sér tíma í að skrifa nafnið sitt á báða keppnisskóna og gaf síðan ungri stúlku skóna. Sú hin sama var í Curry-treyju og trúði varla sínum eigin augum þegar uppáhaldsleikmaðurinn hennar gaf henni skóna sína eins og sjá má hér fyrir neðan.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×