Innlent

EasyJet-vél á leið til Íslands þurfti að millilenda í Edinborg eftir martraðarflug

Birgir Olgeirsson skrifar
Farþegaþota Eastjet, en myndin tengist efni fréttar ekki beint.
Farþegaþota Eastjet, en myndin tengist efni fréttar ekki beint. Vísir/Getty
Flugstjóri farþegaþotu breska flugfélagsins EasyJet, á leið frá Manchester til Keflavíkur, þurfti að lenda þotunni í Edinborg í Skotlandi vegna drukkins farþega sem var með ólæti. Hafa farþegar lýst þessari áætlunarferð sem martraðarflugi í samtali við breska fjölmiðla.

Var lagt af stað frá flugvellinum í Manchester síðdegis í gær en sjónarvottar segja manninn hafa verið drukkinn þegar hann kom inn í vélina. Skömmu eftir flugtak byrjaði maðurinn að ráfa fram og til baka um sætisgangana í farþegarýminu á meðan hann saug rafrettu ákaft, sem er bannið í flugi.

Hann er sagður hafa öskrað á áhöfnina og hótað farþegum. Á einum tímapunkti braut hann iPhone-síma sinn í tvennt, sem varð til þess að mikill neisti barst frá rafhlöðunni.

Segja sjónarvottar að reynt hafi verið að tala manninn til en hann æstist þeim mun meira við tiltal. Þegar lögreglan fór um borð í vélina á flugvellinum í Edinborg voru farþegar orðnir dauðhræddir við manninn og allir fegnir því að hann hefði verið handtekinn og fjarlægður úr vélinni.

Easyjet staðfestir þetta atvik í yfirlýsingu sem flugfélagið sendi á miðla ytra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×