Erlent

Engin sérstök ástæða að baki skotárásinni mannskæðu í Las Vegas

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikil skelfing greip um sig er Paddock hóf skothríðina.
Mikil skelfing greip um sig er Paddock hóf skothríðina. Getty/David Becker
Það er niðurstaða bandarísku Alríkislögreglunnar FBI að engin ein sérstök ástæða hafi búið að baki skotárásinni í Las Vegas í Bandaríkjunum árið 2017 þar sem 58 létust er Stephen Paddock lét kúlunum rigna yfir tónleikagesti á Route 91 Harvest tónleikahátíðinni.

Þetta kemur fram í lokaskýrslu FBI vegna rannsóknar á skotárásinni sem er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna. Paddock lokaði sig inni í hótelherbergi ofarlega á hótelinu. Þar var hann vel vopnum búinn og lét sem fyrr segir byssukúlunum rigna yfir tónleikagesti. Alls slösuðust tæplega 900 manns í árásinni.

Sjá einnig: Nýtt myndband varpar ljósi á hryllinginn í Las Vegas

Aaron Rouse, yfirmaður rannsóknarinnar, segir að Paddock hafi ekki verið hluti af neinum hóp eða hryðjuverkasamtökum og hafi, eftir því sem FBI kemst næst, ekki framið árásina í nafni einhvers málstaðar.

Stephen Paddock var 64 ára gamall.
Þá hafi árásin ekki framin sem einhvers konar hefndaraðgerð gagnvart spilavítum í borginni en Paddock hafði undanfarin tvö ár fyrir árásina tapað háum fjárhæðum í spilavítum. Rannsóknin leiddi hins vegar í ljós að Paddock hafði greitt allar spilaskuldir sínar áður en hann framdi árásina.

Útlit er fyrir að það sem helst hafi vakið fyrir Paddock hafi verið að öðlast einhvers konar frægð eða þá að reyna að valda eins miklum skaða og hægt var. Paddock skildi hins vegar ekki eftir nein bréf eða upplýsingar sem varpað gátu frekari ljósi á ástæður skotárásinnar. Paddock framdi sjálfsmorð í hótelherberginu og er talið líklegt að hann hafi alltaf haft slíkt í hyggju.

„Hann var einn að verki. Hann framdi hræðilegt voðaverk. Hann féll fyrir eigin hendi. Ef hann hefði viljað skilja eftir skilaboð hefði hann gert það. Það sem eftir stendur er að hann vildi ekki að neinn myndi vita ástæðuna,“ sagði Rouse.


Tengdar fréttir

Nýtt myndband varpar ljósi á hryllinginn í Las Vegas

Þrjár vikur eru liðnar frá mannskæðustu skotárás í sögu Bandaríkjanna þegar Stephen Paddock drap 58 og særði hundruð í Las Vegas. Nýtt myndband varpar frekari ljósi á skotárásina sjálfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×