Handbolti

Guðmundur: Verður að hrósa íslensku liðunum fyrir að undirbúa þessa stráka svona vel

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Guðmundur Guðmundsson er með ungt lið í München.
Guðmundur Guðmundsson er með ungt lið í München. vísir
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, er mættur á HM með ungt og spennandi lið en í hópnum eru sex stórmótanýliðar með meðalaldur upp á 20,7 ár og tveir leikmenn til viðbótar eru að fara á sitt annað stórmót.

Kynslóðaskiptin sem talað hefur verið um svo lengi eru mætt og hraðar en þjálfarinn bjóst við eins og hann hefur talað um sjálfur en þetta unga lið spreytir sig á móti stórliði Króatíu í München á morgun klukkan 17.00 að íslenskum tíma.

Guðmundur er búinn að vera í handbolta í rúm 30 ár, bæði sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur spilað með og þjálfað íslensk félagslið, gert það sama í atvinnumennskunni og bæði spilað fyrir og þjálfað landslið.

Tímarnir breytast og leikmennirnir með, en eru þessir ungu íslensku guttar eitthvað öðruvísi spilarar eða karakterar heldur en hann hefur séð áður?

„Þeir eru margir mjög vel þjálfaðir og mér finnst þeir vera miklir fagmenn sem er aðdáunarvert. Karakteranir eru svipaðir vegna þess að það hafa alltaf verið til frábærir karakterar sem vilja deyja fyrir málstaðinn. Þessir strákar eru það örugglega líka,“ segir Guðmundur.

Í HM-hópi Íslands eru þrír leikmenn sem spila í Olís-deildinni og þrír til viðbótar sem fóru úr henni í atvinnumennsku fyrst síðasta vor.

„Það verður að hrósa íslensku liðunum og þjálfurunum hérna heima sem eru að undirbúa þessa drengi vel. Þau eru að vinna mjög gott starf og þau mega fá að heyra það líka. Þau eru að búa til mjög frambærilega íþróttamenn og það er mjög ánægjulegt,“ segir Guðmundur Guðmundsson.

Klippa: Gummi Gumm - Frambærilegir íþróttamenn

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×