Erlent

Innlyksa selir valda usla á Nýfundnalandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar sjóinn lagði skyndilega festust selirnir inni. Myndin er úr safni og er ekki frá Roddickton.
Þegar sjóinn lagði skyndilega festust selirnir inni. Myndin er úr safni og er ekki frá Roddickton. Vísir/EPA
Óttast er um lífi tuga sela sem urðu innlyksa í bæ á Nýfundnalandi. Tveir hafa þegar drepist þegar þeir urðu fyrir bíl og áhyggjur eru af því að hinir gætu drepist úr sulti. Selirnir hafa sett bæjarlífið úr skorðum, tafið umferð og þvælst fyrir dyrum íbúðarhúsa og fyrirtækja.

Ekki er óalgengt að selir láti sjá sig við bæinn Roddickton-Bide Arm á Nýfundnalandi í Kanada. Hópur þeirra varð hins vegar innlyksa þegar sjóinn við bæinn lagði skyndilega í síðustu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sérfræðingar telja að sjóinn hafi lagt svo hratt að selirnir hafi ruglast í ríminu og leitað lengra inn í land.

Bannað er samkvæmt kanadískum lögum að hrófla við sjávardýrum eins og selum. Bæjarráðið hefur óskað eftir aðstoð ríkisstjórnarinnar við að koma selunum til bjargar.

„Það eru selir á vegunum, það eru selir í heimkeyrslum fólks, görðum þess, bílastæðum, dyrum, fyrirtækjum,“ segir Sheila Fitzgerald, bæjarstjórinn í Roddickton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×