Handbolti

Fimm á liðsmyndinni eru ekki í HM-hópnum

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Liðsmynd Íslands í opinberu tímariti heimsemeistaramótsins í handbolta.
Liðsmynd Íslands í opinberu tímariti heimsemeistaramótsins í handbolta. vísir/tom
Á öllum heimsmeistaramótum í handbolta eins og fleiri greinum er gefið út veglegt opinbert tímarit með upplýsingum um allt það helsta; liðin, leikmannahópana, leikstaðina og fleira.

Á opnunni um íslenska liðið er farið yfir helstu afrek þess í textanum eins og silfrið í Peking og þá er árangur liðsins á HM í gegnum tíðina rakinn.

Stóri 28 manna landsliðshópurinn er svo skrásettur en Guðmundur Guðmundsson gerði pennum tímaritsins lítinn greiða með því að bíða fram á síðustu stundu með að velja liðið. Hann þurfti þó að gera það vegna meiðsla.

Teitur Örn Einarsson, sem kom óvænt inn í hópinn í vikunni, er til dæmis ekki skráður með númer en Selfyssingurinn var kallaður á æfingu á mánudaginn og flaug út með liðinu í fyrradag.

Það vandræðalegasta við opnuna er líklega liðsmyndin sem er tæplega eins árs gömul, tekin í Víkinni á æfingum liðsins fyrir æfingamótið í Noregi á síðasta ári. Hún er ekki alveg nýjasta nýtt.

Á henni eru fimm leikmenn sem ekki eru með á HM og þrír af þeim voru ekki einu sinni í 28 manna hópnum sem eru þeir leikmenn sem löglega mega spila á heimsmeistaramótinu. Einn af þeim, Vignir Svavarsson, hefur líka lagt landsliðsskóna á hilluna.

Markvörðurinn Viktor Gísli Halglrímsson situr fremst á myndinni en Framarinn ungi og stórefnilegi var ekki valinn í 28 manna hópinn líkt og hægri skyttan Ragnar Jóhannsson sem situr við hlið hans. Alexander Örn Júlíusson, leikmaður Vals, var sömuleiðis ekki í 28 manna hópnum en er á myndinni þar sem að hann þreytti frumraun sína í Noregi á síðasta ári.

Rúnar Kárason og Ágúst Birgisson eru svo hinir tveir sem eru á liðsmyndinni í tímaritinu en eru ekki í HM-hópnum. Hægt er þó að kalla þá inn þar sem að þeir eru í stóra 28 manna hópnum sem var valinn í byrjun desember.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×