Erlent

Reiði vegna samstarfsins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Santiago Abascal og Francisco Serrano, leiðtogar Vox.
Santiago Abascal og Francisco Serrano, leiðtogar Vox. Nordicphotos/AFP
Nokkra reiði má greina á Spáni eftir að öfgaíhaldsflokkurinn Vox tilkynnti að hann hefði náð samkomulagi við Lýðflokkinn og Borgaraflokkinn um að styðja stjórn þeirra í Andalúsíuhéraði.

Flokkarnir tveir fengu samtals 47 sæti á héraðsþinginu af 109 í desember og þurfa því þennan stuðning Vox sem náði tólf sætum, stærsta sigri í sögu flokksins. Hægriflokkarnir munu nú binda enda á nærri fjögurra áratuga langa stjórnar­tíð sósíalista í héraðinu.

Á meðal stefnumála Vox sem vekja óhug á meðal fjölmargra Spánverja er afnám samkynja hjónabands, harðlínustefna í innflytjendamálum og sterk andstaða við femínisma.

Allnokkrir Lýðflokksmenn lýsa áhyggjum af ákvörðun flokksins í Andalúsíu samkvæmt El Nacional. Alfonso Alonso, forseti Baskalands, sagði að í Andalúsíu hlytu menn að vera með lausar skrúfur í höfðinu og Fernando Lópezs Miras, forseti Múrs­íu, sagðist sömuleiðis ekki hrifinn.

Katalónar, sem lengi hafa gagnrýnt Lýðflokkinn, meðal annars vegna stjórnarhátta í kringum sjálfstæðisatkvæðagreiðslu Katalóna haustið 2017, létu einnig í sér heyra.

Quim Torra héraðsforseti sagði áhyggjuefni að Lýðflokkurinn og Borgaraflokkurinn leituðu til „fasista“ og Ada Colau, borgarstjóri Barcelona, sagði samkomulagið til skammar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×