Handbolti

Íslenskir stuðningsmenn hittast í Bjórgarðinum í Ólympíuhöllinni fyrir leik

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Sérsveitin lagði af stað í gær og er komin til München.
Sérsveitin lagði af stað í gær og er komin til München. mynd/sérsveitin
Búist er við ríflega 500 Íslendingum á leik Íslands og Króatíu á HM 2019 í handbolta í dag en HSÍ seldi alla 500 miðana sem það fékk til að úthluta á mótið.

Fleiri Íslendingar hafa svo reddað sér miða eftir öðrum leiðum og gætu íslenskir stuðningsmenn því verið allt undir 600 í Ólympíuhöllinni í dag. Strákarnir okkar fá því góðan stuðning.

Íslenskir stuðningsmenn hita upp í Bjórgarðinum í Ólympíuhöllinni þannig ekki verður langt að fara á leikinn sjálfan en upphitun hefst klukkan 14.00, þremur klukkustundum fyrir leik Íslands og Króatíu.

Íslendingarnir geta kíkt á sinn mann Dag Sigurðsson stýra japanska landsliðinu á milli þess sem guðaveigarnar eru teygaðar en Japan mætir Makedóníu i fyrsta leik dagsins klukkan 15.30.

Einnig verður hitað upp í Bjórgarðinum fyrir leikinn gegn Spáni á sunnudaginn en fyrir leikina gegn Barein og Japan verður notast við Seerestaurant sem er í þriggja mínútna fjarlægð frá keppnishöllinni. Aftur verður farið í Bjórgarðinn í Ólympíuhöllinni fyrir leikinn gegn Makedóníu.

Sérsveitin, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins, er mætt til München og mun sjá um að koma öllum í gírinn. Veitingar verða að sjálfsögðu í boði og verður andlitsmálun fyrir þá sem vilja.

Óheimilt er að selja treyjur í keppnishöllinni, að því fram kemur í færslu á vef HSÍ, og því verða íslenskar treyjur seldar fyrst á Seerestaurant fyrir leikinn gegn Barein 14. janúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×