Handbolti

Alfreð: Aron verður að skjóta mikið á markið

Tómas Þór Þórðarson í München skrifar
Alfreð Gíslason fer aftur heim eftir daginn í dag.
Alfreð Gíslason fer aftur heim eftir daginn í dag. vísir/sigurður már
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska stórliðsins Kiel og fyrrverandi landsliðsmaður og þjálfari, er mættur til München í Ólympíuhöllina til að fylgjast með Íslandi spila á móti Króatíu í dag.

Alfreð stýrði landsliðinu sjálfur síðast þegar að mótið fór fram í Þýskalandi árið 2007 en hann fagnar því að vera í fríi alltaf í janúar og geta horft á smá handbolta.

„Það er mjög fínt. Ég er bara með fjóra heima sem ég get þjálfað þannig að það er bara fínt að geta skroppið hingað niður eftir og horft á Ísland,“ segir Alfreð við Vísi.

Kynslóðaskiptin eru komin hjá íslenska landsliðinu en hvernig líst Alfreð, sem hefur allt unnið í félagsliðabransanum, á þessa nýju kynslóð og verkefnið sem Guðmundur Guðmundsson félagi hans er að vinna í.

„Fyrr eða seinna þarf að breyta til og yngja upp mannskapinn þó alltaf sé best að spila á því sterkasta sem við eigum,“ segir Alfreð.

„Það virðist vera komið að því þessir ungu menn þurfa að spila og þeir eru í þessum hópi manna sem eru taldir sterkastir. Það var mikil blóðtaka að missa Gauja í meiðsli en Aron er reyndur. Það er gaman að sjá hann í fyrirliðastöðunni og axla mikla ábyrgð. Þessir yngri verða nú að sýna sig.“

Aron Pálmarsson á að fara í gamla hlutverkið sitt sem stórskytta og skjóta markið og skora mikið af mörkum en hann viðurkenndi í gær að það hefur reynst erfitt að fara aftur í það hlutverk.

„Það er rökrétt að maður eins og Aron verður að skjóta mikið á markið í þessari uppstillingu sem að við eigum í dag,“ segir Alfreð.

„Hann er heimsklassa leikmaður hvort sem að hann tekur skotin eða spilar fyrir hina. Hann er frábær leikstjórnandi en eins og staðan er í dag þurfum við á honum að halda hættulegum fyrir framan markið,“ segir Alfreð Gíslason.

Klippa: Alfreð Gíslason - Þessir ungu verða að sýna sig

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×