Erlent

Sprenging í bakaríi í París: Þrír látnir

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að koma slösuðu fólki út um glugga húsnæðisins og bílum sem höfðu oltið á hliðina vegna sprengingarinnar.
Slökkviliðsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að koma slösuðu fólki út um glugga húsnæðisins og bílum sem höfðu oltið á hliðina vegna sprengingarinnar. Vísir/AP
Tveir slökkviliðsmenn og einn almennur borgari létu lífið þegar öflug sprenging varð í bakaríi í níunda hverfi Parísar í morgun. Fjörutíu og sjö slösuðust en tíu eru alvarlega slasaðir. Mikill eldur braust út í kjölfarið, húsið stórskemmdist og rúður í nærliggjandi húsum brotnuðu. Talið er að sprengingin hafi orðið vegna gasleka að því er fréttastofa AP greinir frá.

Slökkviliðsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að koma slösuðu fólki út um glugga húsnæðisins og bílum sem höfðu oltið á hliðina vegna sprengingarinnar.

Bakaríið stendur við götuna Rue de Trévise skammt frá leikhúsinu Filies-Bergere en gatan er steinsnar frá vinsælu verslunarhverfi þar sem verslunarmiðstöðin Galeries Lafayette stendur.

Lögreglan er með mikinn viðbúnað í Parísarborg vegna mótmæla „Gulu öryggisvestanna“ sem eru boðuð í dag.

Fréttin var uppfærð klukkan 15:45 með nýjustu fréttum um fjölda látinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×