Körfubolti

Curry orðinn sá þriðji þristahæsti og Harden setti sögulega þrennu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stephen Curry kann að skjóta körfubolta
Stephen Curry kann að skjóta körfubolta vísir/getty
Stephen Curry er orðinn þriðji þristahæsti leikmaðurinn í sögu NBA deildarinnar og James Harden náði sér í sögulega þrefalda tvennu í nótt þegar níu leikir fóru fram í NBA deildinni.

Hinn þrítugi Curry er ein af stórstjörnum meistaraliðs Golden State Warriors og hann var enn einu sinni drifkrafturinn í sóknarleik Warriors sem vann Chicago Bulls 146-109 á heimavelli.

Curry skoraði fimm þriggja stiga körfur í nótt og er því kominn með 2285 þriggja stiga körfur á ferlinu. Með þriðju þriggja stiga körfu kvöldsins, númer 2283, fór Curry yfir Jason Terry á listanum yfir þá menn með flesta þrista í sögu NBA og situr nú í þriðja sæti.





Þeir sem eru nú á undan Curry eru Reggie Miller með 2560 þrista og efstur er Ray Allen sem skoraði 2973 þrista á ferlinum.

„Þetta er mjög sérstakt afrek. Þessir tveir sem eru eftir fyrir ofan mig, þetta eru þeir sem ég horfði á sem barn, þeir voru átrúnaðargoðin mín,“ sagði Curry eftir leikinn.

Curry skoraði 28 stig í leiknum í nótt, Kevin Durant bætti 22 stigum við í mjög öruggum sigri Warriors.





Í Houston unnu heimamenn öruggan sigur á Cleveland Cavaliers 141-113. James Harden hefur verið óstöðvandi fyrir Houston undanfarið og hann nældi sér í sína þriðju þrennu í síðustu sex leikjum.

Þrennan er þó merkileg fyrir þær sakir að Harden náði henni á innan við hálftíma.

Samkvæmt Elias Sports Bureau varð Harden fyrsti leikmaðurinn í sögu NBA til þess að ná í þrennu með 40 stigum á minna en hálftíma. Mike D'Antoni, þjálfari Rockets, var búinn að láta Harden vita af því að hann yrði hvíldur í fjórða leikhluta þar sem sigurinn var aldrei í hættu fyrir Houston.

Harden skoraði 43 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar á 29 mínútum og 34 sekúndum.





Úrslit næturinnar:

Philadelphia 76ers - Atlanta Hawks 121-123

Washington Wizards - Milwaukee Bucks 113-106

New York Knicks - Indiana Pacers 106-121

Toronto Raptors - Brooklyn Nets 122-105

Houston Rockets - Cleveland Cavaliers 141-113

Minnesota Timberwolves - Dallas Mavericks 115-119

Utah Jazz - Los Angeles Lakers 113-95

Portland Trail Blazers - Charlotte Hornets 127-96

Golden State Warriors - Chicago Bulls 146-109

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×