Enski boltinn

„Siðlausar“ njósnir Bielsa báru árangur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Argentínumaðurinn játaði að hafa stundað njósnir í áraraðir
Argentínumaðurinn játaði að hafa stundað njósnir í áraraðir vísir/getty
Njósnaleikir Marcelo Bielsa skiluðu honum fimm stiga forskoti á toppi ensku B-deildarinnar en Frank Lampard sakar Argentínumanninn um siðlausa hegðun.

Topplið Leeds mætti Derby, sem situr í 6. sæti, í toppslag í gærkvöld og fór Leeds með 2-0 sigur. Keemar Roofe og Jack Harrison skoruðu mörk Leeds sem er nú með fimm stiga forskot á Norwich, en Kanarífuglarnir eiga þó leik til góða.

Aðalfréttin í kringum leikinn kemur þó leiknum sjálfum minnst við. Fyrir leik í gær bárust fréttir af því að njósnari Leeds hafi sést á æfingu Derby á fimmtudag. Marcelo Bielsa játaði að hann hafi sent starfsmann sinn á völlinn.

Lögreglan var kölluð til vegna grunsamlegra mannaferða fyrir utan æfingasvæði Derby en enginn var handtekinn. Lögreglan sagði engar skemmdir hafa verið á girðingum og maðurinn stöðvaður fyrir utan æfingasvæðið.

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á málinu.

Frank Lampard, stjóri Derby, vildi ekki nota málið sem afsökun fyrir tapinu en sagði þó að eitthvað yrði að gera í málinu.

„Þetta er ekki rétt. Ég hef verið aðdáandi Bielsa og ég á bókina hans heima í stofu, en þetta hefur aðeins breytt skoðun minni á honum,“ sagði Lampard við BBC eftir leikinn.

„Ég hef aldrei heyrt um að einhver sé á fjórum fótum með klippur að reyna að brjótast inn á annara manna land til þess að njósna. En frammistaða okkar í kvöld, hún er á okkar ábyrgð.“

Bielsa segist hafa stundað njósnir í mörg ár og neitar því að það sé siðlaust.

„Ég skil að Lampard sé reiður, honum finnst ég hafa svindlað. En mér finnst ég ekki hafa svindlað því ég var ekki að reyna að ná mér í ólöglegan hagnað,“ sagði Bielsa.

„Ég get útskýrt gjörðir mínar en ég verð að virða venjurnar í því landi sem ég vinn í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×