Enski boltinn

Rashford getur orðið eins góður og Kane

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marcus Rashford hefur fengið að spila meira sem framherji síðan Solskjær tók við
Marcus Rashford hefur fengið að spila meira sem framherji síðan Solskjær tók við vísir/getty
Marcus Rashford hefur alla burði til þess að verða heimsklassa framherji á borð við Harry Kane að mati bráðabirgðastjóra Manchester United Ole Gunnar Solskjær.

Rashford hefur verið frábær í síðustu leikjum með United, skorað þrisvar í leikjunum fimm undir stjórn Norðmannsins.

Manchester United mætir einum besta framherja heims, manninum sem fékk gullskóinn á HM, Harry Kane, á sunnudaginn í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

„Við getum talað um Harry Kane og þann klassa sem hann er í, en Marcus á möguleika á því að komast á þann stað,“ sagði Solskjær.

„Það er mjög spennandi að vinna með honum og hann getur orðið topp framherji. Hann er með ógnvekjandi hraða, verður sterkari og sterkari og getur haldið boltanum.“

Rashford er samtals með sjö mörk á tímabilinu fyrir United og er fjórði markahæsti leikmaður liðsins í vetur.

Leikur Tottenham og Manchester United á Wembley hefst klukkan 16:30 á morgun, sunnudag, og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×