Leik lokið: Spánn - Ísland 32-25 | Annað erfitt tap en ungir menn með góðar innkomur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigvaldi Guðjónsson er einn af ungu mönnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref
Sigvaldi Guðjónsson er einn af ungu mönnunum sem eru að stíga sín fyrstu skref vísir/epa
Íslenska karlalandsliðið í handbolta tapaði með sjö mörkum, 32-25, fyrir Evrópumeisturum Spánverja í öðrum leik sínum á HM í Þýskalandi og Danmörku.

Íslenska liðið byrjaði á mjög góðri vörn í fyrstu sókn Spánverja og neyddi þá í leiktöf. Það voru þrátt fyrir það Spánverjar sem áttu fyrstu tvö mörkin. Íslensku strákarnir komu til baka og jöfnuðu í 3-3 og náðu að hanga í Spánverjunum lengi vel.

Þegar fyrri hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður fór þó að halla undan fæti og Spánverjarnir náðu að byggja sér upp forskot. Íslenska liðið gerði of mikið af mistökum í sókninni og þeir spænsku refsuðu með marki úr hraðaupphlaupi í hvert einasta skipti.

Spánverjarnir eru erfiðir við að eiga og íslensku varnarmennirnir voru reknir út af trekk í trekk, Ólafur Gústafsson og Arnar Freyr Arnarsson, miðverðirnir í vörninni, voru báðir komnir með tvær tveggja mínútna brottvísanir áður en hálfleikurinn var úti.

Þegar komið var í hálfleikinn var munurinn orðinn fimm mörk 19-14. Íslenska liðið var að spila þokkalega en Spánverjarnir refsa grimmt fyrir hver mistök og það skildi að.

Í upphafi seinni hálfleiks héldu Spánverjarnir muninum í kringum fimm mörk en náðu að komast í 27-20 þegar um korter var eftir af leiknum.

Gísli Þorgeir Kristjánsson kom inn um miðjan seinni hálfleikinn og átti mjög góða innkomu í íslenska liðið. Hann var búinn að skora sitt fyrsta mark áður en langt um leið og fiskaði einhver þrjú víti áður en upp var staðið.

Með innkomu Gísla átti Ísland góðan kafla og kom muninum niður í þrjú mörk. Þá sögðu Spánverjar hins vegar stopp og kláruðu síðustu mínúturnar af krafti, lokatölur 32-25.

Annað tap gegn sterkum andstæðingi en vissulega margir jákvæðir punktar.

Nánari umfjöllun kemur inn á Vísi seinna í kvöld sem og viðtöl við landsliðsmenn, einkunnir og fleira.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira